131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:39]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, þá hefur okkur verið skammtaður tími þannig að ég get ekki haft jafnmörg orð og ég ætlaði um þetta ágæta þingmál. Mig langar þó til að koma að nokkrum athugasemdum.

Ég vil byrja á að þakka hv. flutningsmönnum fyrir að leggja það fram og skapa þessa umræðu sem hér hefur átt sér stað sem er bæði óvenjuleg og ekki síður mjög skemmtileg um þjóðsönginn okkar. Ég get heldur ekki látið hjá líða að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir sönginn í umræðunni. Ég minnist þess ekki að mikið hafi verið sungið úr ræðupúlti hins háa Alþingis a.m.k. fram að þessu. En nú hefur orðið breyting þar á og það er skemmtilegt.

Um þetta mál verð ég að segja að ég hef miklar efasemdir um að rétt sé að endurskoða lögin um þjóðsönginn og taka upp annan söng en þann sem nú er þjóðsöngur okkar. Ég hef eins og ég segi miklar efasemdir um það.

Flutningsmennirnir nefna mörg góð lög til sögunnar í greinargerð sem hugsanlegan arftaka núverandi þjóðsöngs. Sömuleiðis eru færð ágætis rök fyrir því í sjálfu sér að taka upp nýjan þjóðsöng. Ég leyfi mér þó að segja að þau eru í mínum huga ekki nógu sterk til þess að stíga þetta skref. Sagt er að erfitt sé fyrir venjulegan mann sem er millilaglaus eða jafnvel rétt heldur lagi að syngja þjóðsönginn. Auðvitað er það rétt að slíkir menn, eins og hv. þm. Mörður Árnason lýsti svo ágætlega í pontunni, verða að herða sig á vellinum þegar þeir ætla að syngja þennan söng. En það verður þá bara að hafa það finnst mér. Þessi þjóðsöngur hefur fylgt okkur í öll þessi ár. Ég tel að hann sé hluti af íslenskri arfleifð og er, eins og hér var nefnt, eins konar sameiningartákn þjóðarinnar. Ég hef verið talsmaður þess að breyta ýmsu í þjóðfélaginu og hef verið býsna frjálslyndur í því sambandi. (Gripið fram í.) Ég er hins vegar þannig gerður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að mér finnst sumir hlutir vera heilagir. Það á t.d. við um íslenska fánann. Ég mundi ekki vilja sjá að á honum yrðu gerðar neinar breytingar og undir sama hatt set ég íslenska þjóðsönginn. Ég tel að það væri mjög varhugavert að skipta honum út fyrir annað lag. Þjóðsöngurinn okkar er fallegur og góður og hann á sér stað í okkar þjóð. Ef menn kalla mig íhaldssaman fyrir þessar skoðanir mínar þá verður bara að hafa það og þá er ég bara stoltur af því.