131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Viðskiptahættir tryggingafélaga og banka.

314. mál
[12:38]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lýsi miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra og tel ábyrgð hennar mikla hvernig hún svarar málinu, vegna þess að mér finnst það lýsa hálfgerðu sinnuleysi af hálfu ráðherrans. Hæstv. ráðherra getur ekki borið fyrir sig, eins og hún gerir ávallt, sjálfstæði stofnunarinnar sem vissulega er sjálfstæð miðað við þá lagagrein í samkeppnislögum sem ég lýsti áðan og miðað við að ráðherrann upplýsti í fréttum Ríkisútvarpsins 11. nóvember að hún hafi beðið Samkeppnisstofnun að rannsaka hugsanlegt verðsamráð olíufélaganna í október árið 2000, ári áður en stofnunin gerði húsleit hjá félögunum. Hvers vegna getur hæstv. ráðherra ekki gert hið sama varðandi tryggingafélögin og bankana?

Eru ráðherrarnir fyrst og fremst með þessi viðbrögð, eins og hæstv. viðskiptaráðherra, til þess að þurfa ekki að standa undir því sem ávallt er verið að kalla eftir, að búa þannig að Samkeppnisstofnun að hún geti sinnt verkefnum sínum? Fjársvelti hefur háð stofnuninni. Fjársvelti varð til þess að tryggingafélögin voru rannsökuð að hluta til, t.d. hvort samkeppnislög hefðu verið brotin innan Sambands íslenskra tryggingafélaga. Þar var sönnuð sekt en eins og segir í Morgunblaðinu í október var talið að sektin hefði fyrnst í höndum Samkeppnisstofnunar af því að það tók hana sjö ár að rannsaka málið. Þetta er ábyrgðarhluti og ég vísa fullri ábyrgð á hendur ráðherra fyrir sinnuleysi í þessum efnum varðandi stöðu Samkeppnisstofnunar, það fjársvelti sem hún hefur þurft að búa við, það vantar 100 millj. kr. til þess að hún geti staðið undir verkefnum sínum og ég blæs á rök (Forseti hringir.) ráðherrans um að hún geti ekki leitað álits hjá Samkeppnisstofnun eins og hefur gert.