131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Langtímaatvinnuleysi.

80. mál
[13:54]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjendum fyrir að hreyfa þessu máli. Það er nauðsynlegt að við fylgjumst vel með og séum vakandi fyrir þeirri stöðu sem uppi er á vinnumarkaðnum. Ég tek sömuleiðis undir áhyggjur hv. fyrirspyrjanda, Steingríms J. Sigfússonar, varðandi þá stöðu sem uppi er og vaxandi langtímaatvinnuleysi og atvinnuleysi bæði meðal ungs fólks og þeirra sem eldri eru á vinnumarkaði.

Ég minntist áðan á nefnd sem ég skipaði sl. sumar sem er að fara sérstaklega yfir atvinnuleysistryggingalöggjöf okkar og vinnumarkaðsaðgerðir. Ég hef lagt á það áherslu við þá sem í þeirri nefnd sitja að við horfum einmitt til reynslu nágrannaþjóða okkar af atvinnuleysi, langtímaatvinnuleysi og vinnumarkaðsaðgerðum. Ég tel að við getum ýmislegt af þeim lært, bæði frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum, sem og Hollendingum, Írum og Bretum sem hafa með eftirtektarverðum árangri tekið á þessum málum í sínum ranni. Sömuleiðis tel ég að við getum horft vestur um haf.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, það er alvarlegt að upplifa á sama tíma góðan hagvöxt og atvinnuleysi í þeim mæli sem við horfum framan í. Ég vil taka fram að í tengslum við kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum sl. vor jók ríkisvaldið við framlag sitt til starfsmenntasjóðanna sem er einmitt í samræmi við þær áherslur sem hv. þm. lagði hér í máli sínu.