131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Símenntun.

133. mál
[14:10]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ætla að mér svara þeirri fyrirspurn sem liggur fyrir á því þingskjali sem hér er til umræðu. En frá því að þær tillögur sem vísað er til í fyrirspurninni komu fram hefur orðið gríðarlegur vöxtur í símenntun á Íslandi.

Alþjóðleg könnun um símenntun og samanburður á niðurstöðum og könnun á símenntun í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar við aðrar alþjóðlegar kannanir staðfestir að þátttaka Íslendinga í símenntun af ýmsu tagi er með því allra mesta sem gerist.

Ýmislegt af því sem unnið hefur verið að í anda fyrrnefndra tillagna hefur auðveldað fólki sem fer til náms að nýju að hefja nám á framhaldsskóla- og háskólastigi. Símenntunarstöðvar, m.a. með styrk frá ríkisvaldinu, eru nú starfandi í öllum landshlutum. Með tilkomu þeirra jókst aðgengi að framhalds- og háskólanámi verulega auk þess sem ráðgjöf er nú mun aðgengilegri fyrir þá sem eru að hefja nám eftir hlé vegna starfa eða af öðrum ástæðum.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins tók til starfa árið 2003. Meginmarkmið fræðslumiðstöðvarinnar er að veita fólki á vinnumarkaði með litla grunnmenntun tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Í framhaldsskólunum hefur verið stofnað til úrræða til að auðvelda fullorðnum aðgengi að námi með því að nýta hluta af starfsreynslu sem hluta af almennum aðgangskröfum eða námsbrautum, eins og t.d. í námi fyrir sjúkraliða sem margir hafa nýtt sér eins og menn vita.

Engar þær breytingar hafa verið gerðar á menntakerfi okkar frá 1998 sem miða að því að gera það erfiðara fyrir einstakling að hefja nám að nýju, hvorki í framhaldsskólum né háskólum. Í reynd hefur ýmislegt gerst á þessum árum sem á að auðvelda fólki að hefja nám að nýju.

Auk þess sem rakið hefur verið að framan má nefna nýjar leiðir til stúdentsprófs sem nú eru skilgreindar í aðalnámskrá framhaldsskóla sem viðbótarnám til stúdentsprófs. Námskrá kveður skýrar en áður á um rétt einstaklinga til að fá fyrra nám og reynslu metna þegar nám er hafið að nýju á framhaldsskólastigi. Jafnframt er unnið að því í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins að setja frekari reglur og leiðbeiningar um það hvernig standa megi að mati á óformlegu námi. Það er mikið hagsmunamál fyrir þá sem vilja hefja nám að nýju.

Framboð á fjarnámi hefur aukist stórlega á undanförnum árum, bæði á framhalds- og háskólastigi, en það reynist oft á tíðum mjög hagstæð leið fyrir þá sem eru að snúa úr starfi til náms.

Frú forseti. Sé litið yfir tímabilið í heild, sem nefnt er í fyrirspurn háttvirts þingmanns, kemur í ljós umtalsverð fjölgun nemenda bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Það er auðvitað afar jákvætt. Nemendum í framhaldsskólum hefur fjölgað um 3.000 á tímabilinu frá 1998–2003 og nemendum í háskólanámi um 6.600 á sama tíma, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.

Haustið 2003 voru í framhaldsskólum landsins skráðir rúmleg 21 þúsund nemar sem er langt umfram fjöldann í menntaskólaárgöngunum 16–19 ára. Á skömmum tíma hafði því nemendum eldri en tvítugum fjölgað um tæplega 3 þúsund en nemendum á aldrinum 16–19 ára fækkað um rúmlega þúsund þannig að aðgengi eldri nema í framhaldsskólakerfinu hefur verið gott og verður gott.

Þessar tölur segja meira en mörg orð um aðgengi að menntun á Íslandi. Tölurnar eru vísbendingar um að átak í eflingu símenntunar hafi tekist vel og hjálpað einstaklingum að hefja að nýju nám í framhaldsskólum. Það hefur verið og verður áfram greið leið fyrir þá sem vilja hefja nám sitt að nýju. Þannig á það auðvitað að vera, frú forseti. Af hálfu stjórnvalda eru engin áform um að breyta því.