131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Fiskvinnslunám.

150. mál
[14:28]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Á sínum tíma var öflugt og blómlegt nám í Fiskvinnsluskóla Íslands, en eftir að yfirvöld hættu eða réttara sagt afnámu réttindin sem menn fengu út úr náminu — ekki var lengur gerð krafa um að menn hefðu ákveðin réttindi til að stjórna fiskvinnslu — þá datt aðsóknin niður. Það er ekkert undarlegt.

Þegar frystitogararnir komu og menn réðu sig þar sem vinnslustjóra og stjórnuðu vinnslu án þess að vera með réttindi, sem færðist smám saman yfir á vinnsluna í landi líka, þýddi það að ungt fólk lét sér ekki detta í hug að afla sér menntunar sem fiskiðnaðarmenn því það fékk engin réttindi umfram þá sem enga menntun höfðu til að stjórna fiskvinnslu í landi.

Það er ekki undarlegt þegar stjórnvöld ganga svona fram að ekki sé mikil ásókn í námið og námið hafi lagst af.