131. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2004.

Tilefni þingfundar.

[14:11]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Því fer fjarri að ég hafi sakað stjórnarandstöðuna um að vera ósamvinnuþýð. Það er ósanngjörn ásökun. Það sem ég sagði var að það væri ekki heppilegt að setja stjórnarandstöðuna í þá óþægilegu aðstöðu á þriðjudag að þurfa að taka afstöðu til afbrigða gagnvart máli sem vitað er að hún hefur mikla fyrirvara og er jafnvel í hreinni andstöðu við. Það er ekkert óeðlilegt við það að halda útbýtingarfund þegar svona stendur á til að mál geti komist á dagskrá þegar það er heppilegt með tilliti til annarra mála sem eru í gangi í þinginu. Það er líka ósanngjarnt að halda því fram að ráðherrar, ég eða aðrir, segi forseta fyrir verkum með þetta mál. Ég óskaði eftir því að þessi fundur yrði haldinn. Við því var orðið. Ég hef jafnframt bent á að þriðjudagurinn næsti gæti verið heppilegur dagur til að ræða málið og það verður að koma í ljós hvort forseti kýs að setja málið á dagskrá þá.

Fjármálaráðherra er ekkert sérstaklega duttlungafullur maður þó að báðir stjórnarandstæðingarnir í dag hafi haldið því fram. Ég hef lagt mig fram um það á þessu þingi, eins og jafnan fyrr, að eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna til að koma málum fram. Ég veit ekki betur en að á þessu hausti hafi stjórnarandstaðan átt mikinn og rúman tíma í ræðustól þingsins með sín eigin mál. Það er fínt, ekkert við það að athuga. Aðalatriðið er að menn haldi áfram að vinna saman og sýni hver öðrum sanngirni þannig að þau mál sem menn bera fyrir brjósti komist að og til umræðu þó að auðvitað verði síðan meiri hluti þingsins að ráða því hvaða mál hljóta hér samþykki.

Frumvarpið sem nú hefur verið útbýtt er reyndar ekki, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti réttilega á, nýtt af nálinni. Það hefur legið fyrir í u.þ.b. eitt og hálft ár hvað í því kynni að felast þannig að þingmenn hafa nú þegar, margir hverjir, tekið forskot á sæluna og rætt það efnislega heilmikið í umræðum um önnur mál, síðast um fjáraukalög fyrr í vikunni. Að þessu leyti til er þetta ekki nýtt mál en það er brýnt að koma því á dagskrá og afgreiða það fyrir jólin.