131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:18]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því harðlega að hér sé um einhvern feluleik að ræða. Hér er einfaldlega um að ræða hækkun á skrásetningargjöldum til Háskóla Íslands, skráningargjaldi sem var í núverandi mynd samþykkt með lögum árið 1991. Það sem verið er að gera núna í fyrsta skipti er að reynt er að draga fram svart á hvítu hvaða raunverulegur kostnaður býr að baki skráningargjaldinu. Það hefur ekki verið gert með jafnskýrum hætti og nú er gert. Við höfum auðvitað gert þetta í samvinnu við Háskóla Íslands. Þetta eru tölur sem koma frá þeim og að ósk þeirra að þessi hækkun er lögð fram af hálfu menntamálaráðherra. Að sjálfsögðu komum við til með að taka tillit til þess kostnaðar sem háskólinn leggur út fyrir. Ég ítreka að sá kostnaður sem liggur að baki skráningargjaldsins er kostnaður sem að mínu mati á alls ekki að taka af kostnaði sem hlýst vegna kennslu, heldur er þetta fyrst og fremst kostnaður tengdur skrásetningunni. Mér þætti miður ef Háskóli Íslands og aðrir ríkisháskólar þyrftu að taka af fjármagni til kennslu eða rannsókna til að standa undir áföllnum kostnaði vegna skrásetningarinnar.