131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:14]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eitt af því sem hv. þm. Þórarinn E. Sveinsson, talsmaður Framsóknarflokksins í þessari skólagjaldaumræðu, sagði í ræðu sinni var að Framsóknarflokkurinn vildi standa vörð um jafnrétti til náms umfram allt annað. Ég er hv. þingmanni sammála. Þess vegna finnst mér það ekki vera alfa og omega þessa máls hvort hér sé um skatt að ræða eða þjónustugjald, hvort hér sé um innritunargjald að ræða eða skólagjald. Ég er á móti hvoru tveggja í opinberum háskólum vegna þess að ég vil standa vörð um jafnrétti til náms, eins og hv. þingmaður. Ég vil spyrja hann: Hvernig getur hann réttlætt það fyrir hönd Framsóknarflokksins að hér sé um eitthvert jafnréttismál að ræða, hér sé ekki ógnað því sem hann kallar jafnrétti til náms?