131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[19:02]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var vitnað í það sem ég eitt sinn sagði, að Háskóli Íslands væri ekki blankur. Að vera blankur í mínum huga er að eiga ekki pening. Háskóli Íslands hefur yfir fjármagni að ráða en eins og ég gat um áðan verður það eflaust aldrei nóg til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru háskólans hverju sinni, bæði innan hans og utan frá. Það er aftur á móti allt önnur saga. En það hefur verið reynt eftir besta megni og getu að mæta fjárþörf háskólans, það verður eflaust aldrei nóg en það hefur verið reynt eftir bestu getu. Ég vil enn og aftur minna á það sem gert hefur verið annars staðar að svona mikilli aukningu nemenda hefur einfaldlega verið mætt með því að nemendaígildin eru skorin niður. Það hefur þó ekki verið gert hér.