131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:53]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu hæstv. fjármálaráðherra var ekki minnst einu orði á það sem fyrirhugað er í skattamálum varðandi hátekjufólkið. Fyrir liggur að lækka á hátekjuskattinn um 2% um áramót og sú útfærsla sem núna er verið að leggja upp með, 1% lækkun tekjuskattsins, kemur þar til viðbótar.

„Má ekki koma til móts við hinn venjulega vinnandi mann?“ spurði hæstv. fjármálaráðherra áðan. Jú, vissulega tel ég að það megi. Mér finnst hins vegar forgangsröðunin nú hjá ríkisstjórninni sem kemur örugglega út úr þessum tilfærslum, þ.e. hátekjuskattinum og núna 1% lækkun tekjuskattsins, vera á þann veg að hún nýtist miklu, miklu betur þeim sem hafa hærri tekjurnar. Það fer ekkert á milli mála. Það er ekki hægt að blekkja jafnvelmenntaða þjóð og Íslendinga með því að setja dæmin fram í prósentum. Það gengur ekki, hæstv. fjármáláráðherra.

Það er algjörlega ljóst að stefna ríkisstjórnarinnar núna við framkvæmdina á næsta ári færir þeim verulegan tekjuauka sem hærri hafa tekjurnar en miklu, miklu minna þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

Við settum það fram sem okkar hugmyndir að skattalagabreytingum fyrir síðustu alþingiskosningar í Frjálslynda flokknum að eðlilegt væri að hækka persónuafsláttinn og þar með hækka skattleysismörkin. Við teljum það eðlilega stefnu til þess að jafna lífskjörin í landinu. Flokkur sem einu sinni kenndi sig við „stétt með stétt“ og ég var í ásamt hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að fara þá leið. (Gripið fram í.)