131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:50]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru dálítið æstir í dag. Gæti það verið vegna þess að sýnt hefur verið fram á það hér með nokkuð hörðum rökum að þetta frumvarp sem þeir eru að leggja til eykur ójöfnuð í samfélaginu? Gæti það verið vegna þess að það kemur fram núna í umræðunni hjá hæstv. fjármálaráðherra að þeir munu neyðast til þess að grípa til niðurskurðar? Gæti það verið vegna þess að hér er að koma fram í umræðunni að til þess að geta staðið straum af þessum skattalækkunum þá er hugsanlegt að menn neyðist til þess að grípa til niðurskurðar í velferðarþjónustunni, t.d. í menntakerfinu og í heilbrigðiskerfinu? Svör við þessu þurfum við að fá.

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði mig hér sérstaklega um virðisaukaskatt og hvort lækkun hans yki ekki þensluna. Nú er það þannig eins og ég gat um hérna áðan að lækkun matarskattsins leiðir til lækkunar á neysluvísitölu sem svarar til 0,8% og það skiptir máli. Sá þáttur þeirrar lækkunar hefur t.d. þensluletjandi áhrif.