131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:36]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit í sjálfu sér ekki hvort það er ástæða til að reyna að leiðrétta hv. þm. Birki Jón Jónsson. Hann fer ákaflega frjálslega með og skautar vítt og breitt yfir. Ég tók a.m.k. eftir tvennu eða þrennu í örstuttu máli hans sem hann fór beinlínis ranglega með.

Hann talaði t.d. um að ég hefði í máli mínu í dag verið að gagnrýna niðurskurð á vegafé í sambandi við þetta skattamál. Ég held að ég hafi ekki nefnt það einu orði. Ég held að ég muni það alveg örugglega rétt.

Hitt er annað mál að ég benti á tilfinnanlegan niðurskurð vegaframkvæmda, t.d. í fjárlagaumræðu hér á dögunum (Gripið fram í.) og hver er skýringin sem gefin var á niðurskurði vegafjár? Nauðsyn þess að draga úr framkvæmdum vegna stóriðjuþenslunnar. Það er sem sagt herkostnaðurinn, ruðningsáhrifin af stóriðjuframkvæmdunum valda því.

Hv. þingmaður hélt því fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri að berjast fyrir hækkun almennra skatta. Það er rangt. Það er ekki hið sama og að gagnrýna það hvernig ríkisstjórnin stendur hér að verki.

Varðandi jaðaráhrif í skattkerfinu er hv. þm. Birkir Jón Jónsson ekki að finna það hugtak upp eða koma fyrstur manna á Íslandi auga á að það sé vandamál. Staðreyndin er auðvitað sú að jaðaráhrif í skattkerfinu keyrðu úr hófi á tíunda áratugnum með óhóflegri tekjutengingu ýmissa bótaliða. Hverjir fóru þar fremstir í flokki? Jú, fyrst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og síðan ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, t.d. með því að tekjutengja barnabætur að fullu, 100%. Þá var heldur betur verið að auka jaðaráhrif. Á þeim árum flutti sá sem hér talar margendurtekið frumvarp um að setja þak á jaðaráhrif í skattkerfinu miðað við 55%.

Varðandi fjármagnstekjuskatt talar hv. þingmaður innblásinn um að ef okkar frumvarp yrði samþykkt, um að hækka almennu prósentuna úr 10% í 18% og leyfa svo að vísu frítekjumark á móti, þá mundi fjármagnið streyma úr landi. Hvert á það að fara? Á það að fara til landanna í kringum okkur þar sem skatthlutfallið er yfirleitt á bilinu 20–40%? Hefur hv. þingmaður ekki haft fyrir því að kynna sér þessa hluti (Forseti hringir.) að lágmarki til að geta talað um þá af svolítilli þekkingu? (Forseti hringir.) Það er einfaldlega þannig að alls staðar í kringum okkur er miklu hærra (Forseti hringir.) skatthlutfall en hér.