131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veggjöld.

149. mál
[12:19]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst það engin sorgarsaga sem hv. fyrirspyrjandi Jóhann Ársælsson hóf hér, að ríkið mundi eignast göngin. Ég tel að það sé hið besta mál, að þeim tíma liðnum sem samningurinn gerir ráð fyrir. En mér finnst umræðan hjá hv. þingmönnum mjög oft vera á þann veg að þeir ýta algerlega til hliðar þeirri staðreynd að gerður var samningur við einkafyrirtæki um að grafa göngin og reka þau með innheimtu á gjaldi sem greiddi kostnaðinn við framkvæmdina. Menn gleyma þessu algerlega og tala eins og hv. fyrirspyrjandi gerði, líkt og það sé ekki staðreynd.

Í svari mínu vakti ég athygli á þeirri úttekt sem Ríkisendurskoðun hefur gert á rekstri Spalar sem leiðir til þessarar niðurstöðu. Mér finnst hún afar mikilvæg og ég tel að hv. fyrirspyrjandi eigi ekki að gera lítið úr því að hægt sé með endurfjármögnun að stórlækka kostnaðinn sem við höfum. Því að við þurfum að greiða bæði lánasjóðum og erlendum fyrirtækjum sem hafa lánað okkur, mjög öflug og góð fyrirtæki. Ég tel að þetta hljóti að vera forgangsmál og þannig getur Spölur tekið til í sínum ranni að ná þar með fram endurfjármögnun og lækkun á kostnaði ganganna. Ég tel að þetta sé forgangsmál og að sjálfsögðu þarf með sama hætti að taka upp t.d. tryggingakostnaðinn o.fl. Ég tel að fyrirtækið eigi að ganga á undan vegna þess að það skiptir mjög miklu máli að við nýtum okkur þetta mannvirki og þá miklu fjárfestingu sem þar er til staðar.