131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla.

233. mál
[14:19]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Í mars á síðasta ári, 15. mars 2003, var samþykkt á hinu háa Alþingi þingsályktun um framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla. Í ályktuninni kom fram að skipaður yrði starfshópur með fulltrúum nokkurra ráðuneyta og frá hagsmunasamtökum fatlaðra til að semja framkvæmdaáætlun sem hefði það að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla með hliðsjón af meginreglu Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra. Starfshópurinn átti að leggja fram tillögu sína fyrir 1. október 2003, þ.e. það var mikill metnaður að vinna vel á ári fatlaðra og að skila þessari framkvæmdaáætlun á því ári.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, hæstv. forseti, að þarna ríkti nokkur bjartsýni að ná að setja saman og vinna vandlega að þessari framkvæmdaáætlun. Nú er liðið ár frá því að hún átti að liggja fyrir og ég tel mikilvægt að við fáum upplýsingar um hvenær áætlað er að hún verði lögð fram, því að það er svo margt sem þarna hangir á spýtunni. Við ætlum síðust þjóða á Norðurlöndunum að framfylgja þessum mikilvægu meginreglum Sameinuðu þjóðanna um fatlaða þar sem Norðurlandaþjóðirnar hafa þegar sett fram framkvæmdaáætlun með mismunandi hætti. Ég veit að starfshópurinn var skipaður fljótlega og hann hefur verið að vinna en til þess að geta tekið næsta skref, þ.e. að koma framkvæmdaáætluninni inn í öll ráðuneyti, til allra sveitarstjórna, inn í lagasetningu og inn í reglugerðir þannig að þessi framkvæmdaáætlun verði samþætt í öllu þjóðlífinu, þurfum við að fara að bretta upp ermarnar og koma vinnunni í gang. Hugsanlega er einn mikilvægasti þátturinn í þessari framkvæmdaáætlun að breyta hugsun og hugmyndafræði okkar til fatlaðra.

Fyrirspurn mín, hæstv. forseti, er svohljóðandi :

1. Hvenær má vænta að framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla verði kynnt?

2. Mun framkvæmdaáætlunin ná til fleiri þátta en ferlimála?

3. Verður lögð áhersla á hönnun fyrir alla?

4. Er unnið að tillögum um breytingar á lögum og reglugerðum sem lúta að aðgengismálum samhliða gerð framkvæmdaáætlunar?