131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veiðiregla.

181. mál
[15:12]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru ótrúlegir fordómar sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur gagnvart reikningi, stærðfræði og tölum. Ef við reiknum ekki neitt, ef við leggjum ekki eitthvað til grundvallar til þess að reikna út frá til að komast að einhverri niðurstöðu um hvernig hlutirnir voru, hvað vitum við þá og á hverju eigum við þá að byggja?

Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að við réttum ekki af fortíðina eftir á. En við þurfum hins vegar að skoða hvernig hlutirnir hefðu hugsanlega orðið hefðum við gert hlutina einhvern veginn öðruvísi. — Ekki hægt að setja inn í reiknilíkan og ýta á takka. Ef við gerum ekkert svoleiðis, á hverju eigum við þá að byggja ákvarðanir okkar? Ef við reynum ekki að nálgast það hvernig hlutirnir munu hugsanlega þróast í framtíðinni þá höfum við ekki á neinu að byggja þegar taka á ákvarðanirnar. Líffræðin er alltaf á bak við þetta allt saman, þannig að þetta er ekkert alveg úti að aka. En þetta er ekki eins nákvæmt eins og við hefðum viljað hafa það.

Háttvirtur þingmaður Sigurjón Þórðarson spurði aftur, sem var ágætt, af hverju sömu menn, að breyttu breytanda, hefðu verið settir til þess að endurskoða sín fyrri verk. Því er til að svara að það hefur farið fram þreföld endurskoðun á stofnmatinu og því hvernig stofnmatið og aflareglan hefur virkað saman. Tveir hópar erlendra aðila voru fengnir til að vinna þá vinnu og niðurstöður þeirra hafa verið kynntar á fyrirspurnaþingum sem ráðuneytið hefur staðið fyrir. Til viðbótar voru aðilarnir sem stóðu að aflareglunni fengnir til að fara yfir þetta líka og niðurstöður þeirra hafa líka verið kynntar.

Ástæðan fyrir því að þeir fengu líka tækifæri til að gera það var sú, að aflareglan sem endanlega var ákveðin og farið var eftir var ekki sú aflaregla sem sá hópur lagði til. Það skýrir auðvitað ekki allt sem hefur verið að gerast eða allan muninn á þróuninni sem menn áttu von á, það var fyrst og fremst ofmatið á fiskstofnunum sem skýrir þann mun, eins og kom fram í fyrra svari mínu.