131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fiskveiðistjórnarkerfi.

232. mál
[15:18]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég verð enn og aftur að lesa upp fyrirspurn hv. þm. því hann flytur ekki fyrirspurnirnar í ræðum sínum á sama hátt og þær birtast mér á þingskjölunum sem ég fæ.

Fyrirspurn hv. þm. til mín í þessu tilfelli er:

„Er ráðherra sammála þeirri einkunnagjöf um fiskveiðistjórnarkerfi sem fram kemur í bókinni The End of the Line, sem ráðherra vitnaði ítrekað í á síðasta aðalfundi Landssambands smábátaeigenda?“

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að bókin er mjög gagnrýnin á fiskveiðar eins og þær fara fram í Atlantshafi og víðar þar sem svipuðum aðferðum er beitt. Auðvitað byggist gagnrýnin fyrst og fremst á því hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig sunnar í Atlantshafinu, í Norðursjónum og í kringum Bretlandseyjar, þar sem höfundurinn þekkir eðlilega vel til.

Hann hefur hins vegar kynnt sér hvernig málum er háttað víðar, hvernig að fiskveiðistjórninni er staðið og hver árangurinn hefur verið. Hann gefur Íslandi vissulega góða einkunn og betri einkunn en Færeyingum og náttúrlega enn þá betri einkunn en Norðmönnum og fer jafnvel gagnrýnum orðum um það hvernig ástandið er á Nýja-Sjálandi. En þessi fjögur fiskveiðistjórnarkerfi, held ég að megi fullyrða, eru almennt talin standa upp úr kannski með fiskveiðistjórnarkerfinu í Barentshafi um að hafa náð þokkalegum árangri í því að stýra fiskveiðum.

Spurningin, eins og ég sagði áðan, var hvort ég væri sammála þessari einkunnagjöf. Ég verð ég að segja, frú forseti, að ég er ekki alls kostar sammála þeim einkunnum sem þarna koma fram. Þeir hlutir sem höfundurinn telur gagnrýnisverða á íslenska kerfið eru annars vegar hlutir sem þegar er búið að færa til betri vegar, samanber umframveiðina sem tengist m.a. dagakerfinu og eins það sem hann gagnrýnir varðandi hvernig að upphaflegu úthlutuninni var staðið. Það er hlutur sem snýr ekki beinlínis að fiskveiðistjórninni eins og hún er í dag þótt einhvern veginn öðruvísi hefði verið hægt að standa að úthlutuninni fyrir 20 árum. Ég tel að það eigi því raunverulega ekki við og eigi ekki að verða til þess að draga einkunnina niður.

Hins vegar finnst mér hann jafnvel gefa Færeyingum hærri einkunn en þeir eiga skilið, ekki vegna þess að þeir séu með dagakerfi því ég held að hægt sé að útfæra ágæt dagakerfi sem gætu náð árangri, þó að ég haldi að það sé erfiðara en að útfæra kvótakerfi vegna þeirra tæknilegur framfara sem verða hvað varðar sjósóknina sem þarf að taka tillit til. En það sem ég tel varhugaverðast í færeyska kerfinu, og hann fjallar ekki mikið um í bókinni, er hvernig staðið er að ákvarðanatökunni varðandi fjölda veiðidaganna þar sem um er að ræða nefnd sem á að standa að þessari ákvörðun. Gagnrýni mín á það kerfi er af sama toga og gagnrýni mín á ákvarðanir Evrópusambandsins þar sem væntanlega 25 ráðherrar koma saman til þess að taka ákvarðanir um það hver heildaraflinn úr hinum ýmsu stofnum sem veiðast á hafsvæðum Evrópusambandsins eigi að vera.

Það hefur reyndar sýnt sig að nefndin sem tekur ákvarðanir í Færeyjum hefur aldrei svo nokkru nemi fækkað sóknardögunum, en það þarf að gera árlega um allt að 5% vegna aukinnar tæknivæðingar við að sækja fiskinn. Þetta tel ég að sé gagnrýnivert. Við verðum líka að hafa í huga að á þeim árum sem kerfið hefur verið í gildi hafa Færeyingar iðulega fengið ábendingar um það frá Alþjóðahafrannsóknastofnuninni að draga þurfi úr veiðinni vegna ástands stofnanna og þess vegna þurfi að fækka dögunum. Ég tel því að Færeyingar séu jafnvel að fá of háa einkunn vegna þeirra galla sem mér sýnast vera á kerfinu.

Hins vegar finnst mér að nágrannar okkar Norðmenn fái jafnvel of lága einkunn vegna stjórnunarinnar í Barentshafi. Ég tel að það sé mjög erfið stjórnun vegna lífkerfisins þar, þar eru gríðarlega miklar sveiflur og þeir hafa verið að reyna að koma á kerfi sem virkar og alla vega eins og staðan er í dag eru þar mjög jákvæð merki.

Sama er að segja um Nýsjálendinga. Þeir hafa verið að reyna að koma á góðu fiskveiðistjórnarkerfi og njóta kannski ekki alveg sannmælis í bókinni. (Forseti hringir.) Þar með tel ég að ég hafi svarað spurningu hv. þm. um það hvort ég sé sammála einkunnagjöfinni eða ekki.