131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:43]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason er búinn að halda hér allítarlega ræðu þar sem hann hefur komið inn á marga þætti og væri út af fyrir sig vert að fara yfir suma af þeim. En það sem ég vil hins vegar ræða hér er að við höfum setið saman í fjárlaganefnd í haust, ég og hv. þingmaður og ég geri ráð fyrir að við höfum verið að fjalla þar um sama fjárlagafrumvarpið.

En í niðurlagi nefndarálits kemur fram, með leyfi forseta:

„Fyrsti áfangi stórfelldra skattalækkana kemur til framkvæmda. Þeim er mætt með skertum framlögum til velferðarkerfisins, skólagjöldum og sjúklingasköttum.“

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að miðað við það sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, þar sem framlög til velferðarmála eru stóraukin, ég bendi t.d. á að verið er að auka framlög til menntamála um 8% milli ára, til heilbrigðismála um sömu prósentutölu, á meðan verðlagsforsendur frumvarpsins eru 3,5%, þá segir þetta okkur að það er náttúrlega verið að stórauka framlög til þessara málaflokka, svo ég nefni dæmi.

Þess vegna spyr ég: Hvernig getur hv. þingmaður komið hér upp og haldið því fram að það sé verið að skerða framlög til velferðarkerfisins? Ég spyr hv. þingmann að því. Hvernig er hægt að halda slíku fram ef hann, eins og ég veit að er, hefur verið að fjalla um sama fjárlagafrumvarp og ég í allt haust? Þetta stenst ekki, hæstv. forseti.