131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:24]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við í velferðardeild Samfylkingarinnar fögnum því að hv. þm. viðurkenni að framlög til menntamála á Íslandi séu langt í frá að vera í fremstu röð, en við í ungum og glöggum, eins og hv. þm. kallaði það, erum löngu búin að draga athyglina að því að hér skortir ekkert á í framlögum til heilbrigðismála. Hér skortir einfaldlega á um ráðstöfun fjárins, um til að mynda þessa glórulausu læknasamninga þar sem Sjálfstæðisflokkurinn samdi við sjálfan sig um 25 millj. kr. fyrir einn lækni á Hólmavík þegar ekki eru til nokkrar milljónir til að greiða nauðsynlegan efniskostnað við meðferð ungra ópíumfíkla hjá SÁÁ, um forgangsröðunina sem hv. þm. á að standa og verja en ekki ráðast að fátækasta fólkinu í landinu, dylgja um að það misnoti samfélagsþjónustuna og sé orsökin fyrir vandanum í ríkisfjármálunum. Það eru ekki öryrkjarnir sem honum valda, hv. þm. — það ert þú og þeir samningar sem núverandi ríkisstjórn hefur gert.