131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:00]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki glæsilegt, andsvar háttvirts þingmanns. Hann gerði lítið úr viðleitni stjórnvalda til að auka öryggi íbúa Siglufjarðar. (SigurjÞ: Nei.) Hann gerði lítið úr þeim framkvæmdum sem þar eiga sér stað og miða að því að auka öryggi fólksins sem þar býr. Þar hef ég búið. Ég bjó því miður í næsta húsi við snjóflóðasvæði og slíkt er ekki þægilegt. Ég held að hv. þingmaður hefði þurft að upplifa hvernig sú ógn er.

Ég geri mér grein fyrir því að fólk lifir ekki eingöngu á snjóflóðavörnum, enda var það ekki það eina sem ég nefndi. (Gripið fram í.) En það væri fróðlegt að sjá þá leið sem hv. þingmaður og stjórnmálaflokkur hans hefur talað fyrir og meiri hluti þjóðarinnar greiddi ekki atkvæði sitt fyrir síðustu kosningar. Hvernig hefði sú leið t.d. farið með fyrirtæki eins og Þormóð ramma – Sæberg, eða Samherja, sem eru glæsileg fyrirtæki með hundruð manna í vinnu og eru undirstaða þessarar byggðar. (SigurjÞ: Hvers vegna fækkar fólki?)