131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:11]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekki um persónulegan vilja hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að vinna að málefnum öryrkja og trúi honum til þess að gera það áfram. Ég held að okkur sé öllum ljóst að hjá ríkisstjórninni sem tók við eða hélt áfram eftir kosningar þá höfðu bara önnur atriði forgang. Við upplifum hér skattalækkanirnar. Þær höfðu forgang og þess vegna varð hitt kosningaloforðið að víkja.

Ég vil enn inna hæstv. ráðherra eftir því hvort þeim niðurskurði hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem nú er verði fylgt eftir, þ.e. að spítalanum verði gert að spara um 600 millj. kr. frá því sem starfsemin nú er, eins og liggur fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi. Þetta eru ekki tillögur frá spítalanum um sparnað. Hann stendur frammi fyrir (Forseti hringir.) þessari kröfu. Verður hún látin standa á spítalanum?