131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:39]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi verið í heimi draums og óraunveruleika þegar hann hlustaði á það sem ég hef sagt hér í dag eða í fjölmiðlum vegna þess að ég hef aldrei sagt þetta. Ég er sammála hinum merka fræðimanni Guðmundi Ólafssyni að þessar skattalækkanir munu ekki ríða hagkerfinu á slig, eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þær muni hafa miklu meiri áhrif en þau sem fræðimaðurinn sem vitnað var til hefur sagt. Hv. þingmaður hafði eftir fræðimanninum að þetta mundi hverfa í ölduróti efnahagslífsins. Ég óttast að svo sé ekki. Má ég þá nefna annan fræðimann sem reyndar hefur verið yfirmaður þessa fræðimanns sem hér er vitnað til, Tryggva Þór Herbertsson, sem hefur sagt að til þess að ekki verði mjög neikvæðar afleiðingar af þessum skattalækkunum þá þurfi að taka sama magn af peningum út úr hagkerfinu með einhverjum hætti. Hvernig? Með því að draga úr útgjöldum. Ég spyr þá hv. þingmann: Ætlar hann að skera niður í velferðarkerfinu (Forseti hringir.) eins mig grunar að sé ætlun sjálfstæðismanna?