131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Meðferð opinberra mála og aðför.

309. mál
[12:01]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála og lögum um aðför.

Meginefni frumvarpsins snýr að breytingum er varða sektarinnheimtu og birtingu sektardóma. Auk þess er lagt til að aðfararlögum verði breytt þannig að svokölluð útivistarfjárnám verði heimiluð. Frumvarpið á rætur að rekja til skýrslu starfshóps sem ég skipaði í september árið 2003. Starfshópnum var falið að vinna að endurskoðun sektarinnheimtu og leita leiða til að einfalda vinnu lögreglu við sektarinnheimtu sem og við birtingar sem sektarinnheimtunni fylgja.

Vinna starfshópsins leiddi í ljós að sektarinnheimta hefur oft á tíðum mikla vinnu og fyrirhöfn lögreglu í för með sér vegna margs konar birtinga og skiptir þá ekki máli hvort sú sekt sem innheimta skal er há eða lág. Geta birtingarnar hlaupið á nokkrum tugum við innheimtu á t.d. umferðarsektum og er lýsing á því ferli í greinargerð frumvarpsins. Slíkum birtingum fylgir einnig mikil vinna skrifstofufólks hjá lögreglustjóra og Fangelsismálastofnun.

Ljóst er að mikið hagræði er fólgið í því að leysa lögreglu undan hluta þessara verkefna, bæði með því að einfalda sektarinnheimtuna og með því að fela öðrum tilteknar breytingar og birtingar. Ávallt verður þó að tryggja réttaröryggi sektarþola og gera tillögur frumvarpsins ráð fyrir því að fyrirkomulagi sektarinnheimtu verði aðeins breytt í einföldustu málum.

Með frumvarpi því sem nú liggur fyrir er lagt til að lögregla sem stendur mann að broti geti boðið honum að ljúka máli með greiðslu sektar á vettvangi að þremur skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi er skilyrði að sakborningur gangist skýlaust við broti og verður máli því ekki lokið með þessum hætti hafi sakborningur uppi mótmæli. Í öðru lagi verða að vera fyrir hendi skilyrði til að ljúka máli skv. 115. gr. laganna. Í þriðja lagi er það skilyrði til að máli verði lokið á þennan hátt að hæfileg viðurlög við broti séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr 50 þús. kr. Þessu úrræði yrði því aðeins beitt í einföldustu málum og á það einkum við þegar lögregla stendur mann að umferðarlagabroti.

Ef þessi skilyrði eru uppfyllt, fyllir lögregla út og afhendir sakborningi skýrslu þar sem m.a. kemur fram lýsing á broti, þau refsiákvæði sem það varðar við, hvaða sekt og vararefsing liggur við broti og að unnt sé að krefjast fjárnáms ef sekt greiðist ekki.

Með þessu móti er tryggt að sakborningi séu ljós þau viðurlög sem við broti liggja og afleiðingar þess að sekt sé ekki greidd. Þessi breyting hefur í för með sér að ferill máls er að öllu leyti birtur á vettvangi brots og verður því ekki þörf á birtingu ítrekaðra sektarboða eða bréfaskriftum og birtingum vegna vararefsinga. Með því móti er dregið verulega úr þeim fjárhagslega kostnaði og vinnukostnaði sem felst í núgildandi sektarinnheimtukerfi. Jafnframt hefur breytingin í för með sér visst hagræði fyrir sektarþola sjálfan þar sem ætla má að margir muni kjósa að ljúka máli með greiðslu sektar á vettvangi.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til nokkrar aðrar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála og vil ég hér nefna sérstaklega breytingu á reglum um birtingu dóma. Ekki þurfi að birta dóm þar sem ákærði er dæmdur til greiðslu sektar eða upptöku eigna, sé dómþing ekki sótt af hálfu ákærða við uppkvaðningu hans. Ekki verði þó haggað við þeirri grundvallarreglu að skilorðsbundnir jafnt sem óskilorðsbundnir fangelsisdómar verði birtir ákærða. Meginhagræðið af þessari breytingu er að lögregla eða stefnuvottar þurfa ekki að hafa upp á dómþola til að birta honum dóm í þessum tilvikum, en slíkar birtingar hafa á tíðum reynst tímafrekar.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi er í frumvarpinu gert ráð fyrir breytingum á lögum um aðför sem miði að því að svokölluð útivistarfjárnám verði heimiluð. Tillagan felur í sér að heimilt verði að ljúka fjárnámi að kröfu gerðarbeiðanda án árangurs á starfsstofu sýslumanns, án nærveru gerðarþola að þremur skilyrðum uppfylltum. Þessi skilyrði eru í fyrsta lagi að gerðarþoli hafi verið sannanlega boðaður til gerðarinnar. Í öðru lagi að gerðarbeiðandi hafi engar upplýsingar um eignir gerðarþola. Í þriðja lagi að skýrt hafi verið tekið fram í boðunarbréfi til gerðarþola að ljúka megi gerð með þessum hætti falli mæting niður hjá honum án lögmætra forfalla.

Mikil vandkvæði hafa skapast í framkvæmd vegna þess hve erfitt er að ljúka fjárnámi sem árangurslausu þegar gerðarþoli mætir ekki til sýslumanns, eins og algengt er, og engar upplýsingar um eignir hans liggja fyrir. Svokölluð útifjárnám á heimili gerðarþola eru kostnaðarsöm og tímafrek. Þá hefur lögregla ekki getað aðstoðað við að færa gerðarþola til gerðar í þeim mæli sem þörf hefur verið. Vegna þessa hafa fjárnámsbeiðnir hlaðist upp og hefur það leitt til óánægju gerðarbeiðenda og mikils vinnuálags hjá starfsfólki sýslumannsembætta.

Með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til er stefnt að því að sá kostnaður, tími og fyrirhöfn sem fylgja útifjárnámum og því að kalla til lögreglu til að færa gerðarþola til gerðar minnki til muna.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.