131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:07]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það sé ekki rétt hjá mér að ráðherra gangi frá ráðningu og skipan forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins.

Ég vísa til þess að við höfum eftirlitsstofnanir eins og Ríkisendurskoðun sem var valið að færa undir Alþingi, heyrði fyrst undir Seðlabankann og svo undir fjármálaráðuneytið. Það var talið mikilvægt að gera það til þess að tryggja sjálfstæði Ríkisendurskoðunar.

Samkeppnisstofnun fær fjármagn sitt á fjárlögum þannig að hún er ekki beint háð þeim aðilum sem hún rannsakar málin hjá eða veitir eftirlit. Reyndar fær stofnunin allt of lítið fjármagn.

Nú skiptir afar miklu máli á þessum markaði að það ríki trúnaður og traust gagnvart þeim eftirlitsstofnunum sem um er að ræða. Menn hafa rætt um að í umræddu olíusamráði eru aðilar líka sem tengjast því umsvifamiklir á fjármálamarkaði.

Það verður að ríkja fullkomið trúnaðartraust gagnvart þeim eftirlitsstofnunum sem skipta miklu máli. Ég leyfi mér því að inna hæstv. ráðherra áfram eftir því hvort hún hafi ekki áhyggjur af veikri stjórnsýslulegri (Forseti hringir.) stöðu Fjármálaeftirlitsins.