131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:24]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal reyna að svara þessum spurningum eins og ég get.

Í fyrsta lagi er það alveg rétt hjá hv. þm. að tengsl sjómanna við réttindi í lífeyrissjóði, inngreiðslur og annan rétt, eru í kjarasamningum, og einmitt í síðasta kjarasamningi var verið að breyta verulega ákvæðum er snúa að lífeyrisgreiðslum sjómanna og hafði staðið lengi í þrefi um það, og var m.a. einn af ásteytingarsteinunum fyrir því hversu lengi dróst að gera kjarasamning. Menn eiga því eftir að sjá hvort hann verður samþykktur eins og hann lítur út því að það voru auðvitað líka nokkrar fórnir af hendi sjómanna við að ná þessum samningi þó að ég telji að það sé ávinningur í honum.

Það er líka algjörlega rétt hjá hv. þm. að það eru margir lífeyrissjóðir sem hafa sjómenn innan sinna vébanda eða allnokkrir. Ég nefndi áðan Lífeyrissjóð Austurlands, Lífeyrissjóð Vestmannaeyja og Lífeyrissjóð sjómanna og nefna má Lífeyrissjóð Vestfjarða og Lífeyrissjóð Bolungarvíkur og vafalaust eru þeir fleiri. Það er sammerkt með þessum sjóðum, ef ég veit rétt, að þeir eru allir með mikla greiðslubyrði varðandi örorkuþáttinn og þar af leiðandi hafa þeir á undanförnum árum verið að taka mið af m.a. starfsreglum og lögum Lífeyrissjóðs sjómanna, því að sá sjóður hefur starfað eftir sérstökum lögum og verið brautryðjandi í því að taka upp ýmis réttindi eins og m.a. 60 ára regluna sem aðrir sjóðir tóku svo upp eftir honum, sem var reyndar lagasetning frá Alþingi og ég fór yfir áðan.