131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:03]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég lýsi mig andvígan þeim viðhorfum sem fram komu hjá hæstv. forseta og vek einnig athygli á því að formaður fjárlaganefndar felldi nokkuð þunga dóma yfir ræðu varaformanns fjárlaganefndar þegar hann kallaði það að við skyldum taka upp umræðu um þau orð sem hann lét falla, sjónarspil og til þess fallið að lýsa upp eitthvað í skammdeginu og til að skemmta okkur. En hver var kjarninn í því sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði, varaformaður fjárlaganefndar? Hann sagði að hin ofsafengnu viðbrögð Seðlabankans við aðhaldsleysi í ríkisfjármálum og útlánaaukningu bankanna væru slík að það væri verið að kippa fótunum undan útflutningsgreinunum. Það þýddi að vaxtastigið væri á uppleið. Og hvað þýddi það? Það þýddi styrkingu á krónunni langt um fram það sem útflutningsgreinarnar þyldu. Ef þetta eru ekki nýjar forsendur fyrir umræðu um fjárlagafrumvarpið þá veit ég ekki, virðulegi forseti, hvaða forsendur gera það að verkum að þingið skoði frekar þau fjárlög sem verið er að afgreiða.

Seðlabankinn sem hefur það eitt verkefni að fylgjast með verðlagi í landinu grípur til ofsafenginna viðbragða þegar hann sér hvernig fjárlagafrumvarpið virðist ætla að líta út með þeim skattalækkunum og öðru sem það felur í sér og því aðhaldsleysi sem það ber með sér. Ætlar meiri hlutinn að láta þetta fram hjá sér fara í þeirri stöðu sem við erum í? Ætla menn að láta það ganga eftir sem hv. varaformaður fjárlaganefndar spáir um að fótunum verði kippt undan útflutningsgreinunum? Ætla menn ekki að taka mark á því þegar hann segir að við verðum að framleiða á Íslandi, við verðum að flytja út, við verðum að afla okkur tekna? Er þetta eitthvað sem skiptir ekki neinu máli?

Virðulegi forseti. Ég lýsi mig algerlega andvígum þeim sjónarmiðum sem hér komu fram, að ekki sé ástæða til að taka þetta til frekari skoðunar því að það er mjög alvarlegur hlutur að afgreiða fjárlagafrumvarp frá okkur á sömu forsendum og menn töldu að hefðu legið fyrir þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október og gefa ekki gaum að þeim breytingum sem átt hafa sér stað síðan þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar varaformanns fjárlaganefndar um gersamlega breyttar forsendur í íslensku hagkerfi.