131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:17]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu getum við ekki miðað við launavísitölu. Laun hafa hækkað hér á landi sem hvergi annars staðar. Það sem við getum í hæsta lagi miðað við er neysluverðsvísitala og þá verðum við að taka inn í að iðgjöld í lífeyrissjóð hafa á tímabilinu verið gerð skattfrjáls. Það eykur frítekjumarkið, þau laun sem menn mega hafa í tekjur án þess að greiða skatta. Þegar það er skoðað hefur þetta nokkurn veginn haldið í við verðlagið. Það sem mun gerast núna þegar skattprósentan verður lækkuð enn frekar er að þessi mörk munu hækka enn meira.

Það er dálítið merkilegt og kannski eðlilegt — ég mundi mögulega gera það sama, ég vona þó ekki — að gagnrýna svona óskaplega góðar tillögur eins og hér eru lagðar til, svona óskaplega mikið hamingjufrumvarp. Það getur vel verið að ég færi í svona laufblaðatíning hingað og þangað, leitandi að visnum laufum hér og þar í staðinn fyrir að horfa á heildarmyndina sem felst í því að verið er að fella niður eignarskatt, lækka tekjuskattsprósentuna og bæta barnabætur. Hv. þingmaður nefndi það ekki einu orði og það skemmtilega er að einu sinni, ekki fyrir löngu, var þetta akkúrat markmið og stefna Samfylkingarinnar. En það er liðin tíð. Þeir breyttu allt í einu um kúrs eins og oft áður og þeir munu eflaust breyta um kúrs jafnvel áður en árið er liðið.