131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:50]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að Alþýðuflokkurinn gamli hafi ekki viljað fella niður eignarskatt. Það má vel vera, en hann svaraði engu um tekjuskattinn. Mér heyrist að hann sé nú á móti því að tekjuskatturinn verði svipaður og hann var þegar hann var tekinn upp í staðgreiðslukerfinu. Það er a.m.k. mikil stefnubreyting og hv. þingmaður svaraði engu um það.

Hvað varðar virðisaukaskattinn þá er það algjör hugarburður hjá hv. þingmanni að einhver ágreiningur sé um hann. Það liggur alveg ljóst fyrir að það sem er í þessu frumvarpi eru forgangsatriði ríkisstjórnarinnar og algjör samstaða um þau. Síðan var ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að fara yfir virðisaukaskattskerfið og það mun koma til umfjöllunar á Alþingi þegar þar að kemur. Það sem hv. þingmaður heldur fram er algjör hugarburður og ég vænti þess að hann láti af því mikla hugarflugi sínu og noti gáfur sínar í eitthvað annað.