131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[14:01]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fylgi úr hlaði nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breyting á einkamálalögum og þjóðlendulögum á þskj. 563, 190. mál.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Hólmstein Gauta Sigurðsson frá dómsmálaráðuneyti.

Frumvarpið var áður lagt fram á 130. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Það er nú endurflutt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem meiri hluti allsherjarnefndar lagði til þá.

Með frumvarpinu er lagt til að felld verði niður heimild b-liðar 1. mgr. 126. gr. einkamálalaga, nr. 91/1991, til að veita gjafsókn þegar úrlausn máls hefur verulega almenna þýðingu eða varðar verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Eftir sem áður verður í lögunum að finna heimild til að veita einstaklingi gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður við gæslu hagsmuna hans í dómsmáli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að málssóknin sé kostuð af almannafé. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að dómsmálaráðherra kveði nánar á um starfshætti gjafsóknarnefndar og skilyrði gjafsóknar í reglugerð, þar með talið hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr. laganna.

Í þessu samhengi vil ég geta þess að á fundi fulltrúa dómsmálaráðuneytisins með nefndinni voru m.a. lagðar fram hugmyndir að nýrri reglugerð á grundvelli frumvarpsins, ef það verður að lögum. Ég vil af því tilefni fagna þeim vinnubrögðum að nefndinni hafi gefist tækifæri til að ræða þau álitaefni sem upp koma við samningu slíkrar reglugerðar í ráðuneytinu. Ég held að það hafi verið mikilvægt tækifæri og innlegg í starf nefndarinnar að sjá aðeins lengra en frumvarpið ber með sér og eftir atvikum að nefndin hafi fengið þetta tækifæri til að koma að athugasemdum um þau atriði sem að mati nefndarinnar skipta máli í því samhengi. Því frumkvæði dómsmálaráðuneytisins ber að fagna.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að gjafsóknarákvæði sem sérstaklega er sniðið að þörfum og hagsmunum þeirra sem aðild eiga að þjóðlendumálum bætist við þjóðlendulög, nr. 58/1998.

Umsóknum um gjafsókn hefur fjölgað mjög undanfarin ár og voru þær fleiri en 500 árið 2003. Til samanburðar má nefna að árið 1998 bárust gjafsóknarnefnd 315 umsóknir. Ekki er gert ráð fyrir að gjafsóknarmálum fækki verulega við þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu en hún kann að stemma stigu við þeirri aukningu sem verið hefur undanfarin ár.

Nefndin skoðaði sérstaklega áhrif þeirra breytinga sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi möguleika einstaklinga til að fá gjafsókn í sifjamálum, einkum forsjármálum. Samkvæmt upplýsingum frá gjafsóknarnefnd hefur gjafsókn í forsjármálum í yfirgnæfandi hluta tilvika verið veitt á grundvelli a-liðar 1. mgr. 126. gr. gildandi einkamálalaga, en í honum er að finna reglu sambærilega þeirri sem lagt er til að lögfest verði í frumvarpinu, þ.e. að gjafsókn verði veitt á grundvelli fjárhagsstöðu.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt.