131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:46]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þeirrar spurningar: Hvað er óeðlilegt við það að fyrirtæki sem róa til fiskjar á Íslandi í dag, útgerðir sem eru að ná í ferskan fisk á Íslandsmiðum í dag, skili þeim afla á fiskmarkaði með það að markmiði að allir hafi sama rétt til að bjóða í fiskinn? Það er ekkert óeðlilegt við það. Við höfum séð frændur okkar í Færeyjum gera þetta með afskaplega góðum árangri. Ég hef sjálfur kynnst sjávarútvegi í Færeyjum, herra forseti, og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þeir eru fetinu framar en við í dag. Svo einfalt er það.

Það hlýtur að kalla á mismunun, herra forseti, þegar eitt fyrirtæki getur fengið karfa inn í hús á 50 kr. á meðan samkeppnisaðilar í fiskvinnslu á Íslandi, fiskvinnsla án útgerðar, þurfa sama daginn að sækja sams konar hráefni á 110 kr. á markaðinn. Það er óeðlilegt að boðið sé upp á slíkar aðstæður í markaðsumhverfi. Það er einmitt kjarninn í hugsun þeirra sem flytja þetta mál, að tryggja að (Forseti hringir.) ójöfn samkeppnisskilyrði heyri sögunni til í íslenskum fiskvinnsluiðnaði.