131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Ólögmætt samráð olíufélaganna.

427. mál
[12:39]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Viðskiptavinir — ef nota má það orð um viðskiptamenn olíufélaganna — viðskiptavinir þeirra hafa nú í einfaldri röð sagt frá því í fréttum að þeir hyggist lögsækja þessi félög vegna þess samráðs sem orðið er fullkomlega ljóst. Í þessum hópi eru flugfélögin, útgerðarmenn og fleiri og fleiri og í þeim hópi eru einnig Neytendasamtökin sem hyggjast fara í mál fyrir hönd sinna félagsmanna, með hvaða hætti sem það verður. Allir lýsa þessu yfir nema einn viðskiptavinur og það er hæstv. fjármálaráðherra.

Það er undarlegt hæglæti í fjármálaráðherra og ég óska þess að um leið og hann þarf að skoða málið og líta á það að hann lýsi þá yfir fullum vilja til að gera þetta og setji lögfræðinga sína í gang við að undirbúa það nú þegar.