131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þróun á lóðaverði.

470. mál
[12:46]

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Húsnæðismál hafa verið í brennidepli á síðustu missirum. Mikil gerjun hefur átt sér stað á húsnæðismarkaðnum með tilkomu hagstæðra lánamöguleika sem Íbúðalánasjóður og bankarnir veita landsmönnum öllum. Ég er ekki í vafa um að aukið aðgengi íbúðarkaupenda að lánsfjármagni, fjármagni á mun lægri vöxtum en áður hafa þekkst hér á landi hefur haft þau áhrif að íbúðaverð hefur hækkað verulega ásamt því sem íslenskri þjóð vegnar vel þar sem raunkaupmáttaraukning er um 45% frá 1995.

En eru þetta einu haldbæru skýringarnar? Ég tel svo ekki vera. Á síðustu missirum hefur borið svo við að lóðaverð undir íbúðarhúsnæði hefur hækkað stórlega á síðustu árum. Mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið þann kostinn að bjóða út lóðir undir íbúðarhúsnæði með þeim afleiðingum að svimandi háar upphæðir heyrast í því samhengi.

Það væri kannski sök sér að hafa slíkt fyrirkomulag ef nægt framboð væri af lóðum undir íbúðarhúsnæði. En staðreyndin er hins vegar sú að of lítið af lóðum er undir íbúðarhúsnæði sem gerir það að verkum að þegar svo fáar lóðir eru boðnar fer verðið upp úr öllu valdi, lóðaverð hækkar, húsnæðisverð hækkar sem hefur svo áhrif á þróun verðlags í landinu, verðbólguna sem hækkar húsnæðislán allra landsmanna hvort sem eigandi húsnæðisins býr í Reykjavík eða á Húsavík. Ég tel, hæstv. forseti, að hér sé um varhugaverða þróun að ræða og ljóst ef fram heldur sem horfir með áframhaldandi verðhækkunum á húsnæði gæti orðið kollsteypa á húsnæðismarkaðnum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Því er mikilvægt, hæstv. forseti, að vandað sé til verka en því miður vaknar sú tilfinning að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi ef eitthvað er stuðlað að hækkun íbúðaverðs og ef fram heldur sem horfir er stutt á hengiflugsbrúnina. Það segir sig sjálft að þegar brunabótamat eða fasteignamat er tugum prósentna undir söluverðmæti viðkomandi húseignar þá er nauðsynlegt að staldra við.

Til þess að átta sig á þróun mála hef ég lagt fyrir hæstv. fjármálaráðherra eftirfarandi spurningar:

1. Hver hefur þróun lóðaverðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu verið árin 2000–2005 og hvernig hefur verð á íbúðarhúsnæði þar þróast á sama tímabili?

2. Hver hefur þróun lóðaverðs á Akureyri verið árin 2000–2005 og hvernig hefur verð á íbúðarhúsnæði þar þróast á sama tímabili?

3. Telur ráðherra að lóðaverð íbúðarhúsnæðis hafi haft mikið að segja um þróun verðlags íbúðarhúsnæðis?