131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þróun á lóðaverði.

470. mál
[12:53]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir að vekja athygli á þessu stóra máli. Ég er sammála því sem kom fram í forsögu hans að spurningunum að þetta er auðvitað stórt mál. Við þekkjum það, þingmenn Reykjavíkur, að þróunin á húsnæðismarkaði er orðin mikið áhyggjuefni og búin að vera lengi. Við þekkjum það að þegar menn stunda þá iðju, eins og verið hefur í Reykjavíkurborg, að vera með skort á lóðum og bjóða upp þær fáu lóðir sem eru, þá gerist ekkert annað en að húsnæðisverð hækkar og þar af leiðandi leiguverð og það kemur illa niður á þeim sem kaupa sér húsnæði en þó sérstaklega kemur það illa niður á þeim sem minnst mega sín.

Ég vil enn og aftur, virðulegi forseti, þakka málshefjanda og hæstv. fjármálaráðherra fyrir fyrirspurnir og svör þeirra í þessu stóra máli.