131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr offitu barna.

326. mál
[13:48]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem fram hafa farið um þessi mál. Ég tel einboðið að reyna að halda vel utan um verkefnið Lýðheilsustöðvar. Ég tel að það sé leið til að nálgast grunnskólana og menntayfirvöld að hafa samstarf við sveitarfélögin í þessu efni sem reka grunnskólana..

Varðandi afstöðu heilbrigðisgeirans um auglýsingar á ruslfæði hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ályktað um þau mál þó að mér gæfist ekki tími til að vitna í samþykkt hennar áðan. Í þeim samþykktum kemur fram að í auglýsingum á matvælum og drykkjarvörum eigi ekki að notfæra sér reynslu eins og trúgirni barna og að reynslan hafi sýnt að auglýsingar hafi áhrif á fæðuval og neysluvenjur. Ég tel að afstaða okkar í heilbrigðisgeiranum varðandi auglýsingamálin liggi fyrir. Við viljum reka harða línu í þessum efnum en ég er ekki þar með að segja að löggjöf, boð eða bönn séu leiðin í þessu máli. Það virðist vera einhver árátta hjá hv. 7. þm. Reykv. s. að þrasa í mér ef honum líka ekki svör hæstv. dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar. Málið heyrir undir dómsmálaráðuneytið, löggjöf um auglýsingar, og rétt að ræða það á þeim vettvangi. En afstaða heilbrigðisgeirans liggur fyrir í þessum efnum.