131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Komur á heilsugæslustöðvar o.fl.

253. mál
[14:13]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn hv. þingmanns beinist að því hvernig tekist hefur til með áform um að færa þjónustu við sjúklinga frá sérhæfðari og dýrari þjónustu á lægra stig, til heilsugæslustöðvanna, sem er bæði hagkvæmara og ódýrara fyrir ríkissjóð og almenning. Hér komu fram merkilegar tölur hjá hæstv. ráðherra. Þær segja okkur að þjónustan flyst frá dagvaktinni yfir á síðdegisvaktina. Þunginn er kominn á síðdegisvaktina á heilsugæslustöðvunum en það hefur ekki dregið úr þjónustu slysadeildarinnar og Læknavaktarinnar. Það þýðir að við þurfum að skilgreina þjónustu heilsugæslustöðva á annan hátt. Við getum ekki leyft okkur að beina fólki inn í dýrari þjónustu eins og gert er. Við verðum að skoða nánar kerfi heilsugæslunnar og þjónustu hennar og skilgreina á þann veg að þjónustan sé veitt yfir lengra tímabil á sama verði. Þannig getum við best komið til móts við skjólstæðinga heilsugæslunnar. Við erum enn að beina þeim á dýrari þjónustustig.