131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Menntunarmál geðsjúkra.

100. mál
[14:46]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og eins svar hæstv. ráðherra. Ég vil leggja áherslu á að geðfatlaðir verði áfram skilgreindir með fötluðum og að sérstaklega verði hugað að fullorðinsfræðslu geðfatlaðra til langs tíma. Ég tel það verkefni mjög brýnt og mjög þarft. Gerð hefur verið úttekt á því og það fær góða dóma. Miðað við það hver þróunin hefur orðið á undanförnum árum í fjölgun öryrkja er mikilvægt að koma öryrkjum og þá sérstaklega geðfötluðum út í samfélagið aftur því hugsanlega er þetta tímabundið ástand hjá mörgum ef þeir fá til þess nægilegan stuðning. Fjölmennt og fullorðinsfræðslan eru úrræði sem eru ódýr lausn og góð og ég tel að mikilvægt sé (Forseti hringir.) að hafa samning til langs tíma.