131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Smíði nýs varðskips.

368. mál
[15:43]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál af þeirri léttúð sem kom fram í máli síðasta ræðumanns. Að sjálfsögðu eru allir kostir skoðaðir. Það er hægt að leigja skip og það er hægt að láta sérsmíða skip og allar leiðir eru færar í þessu. Aðalatriðið er, eins og kom fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman, að menn séu sáttir við niðurstöðuna. Ég held að í sjálfu sér hafi engin sérstök sátt ríkt um það að verja 3–4 milljörðum króna í smíði nýs stórs varðskips. Ég held að ekki hafi verið komin nein sú niðurstaða varðandi það mál að hægt sé að segja að einhver endanleg niðurstaða hafi orðið í víðtækri sátt.

Menn hafa alltaf verið með opinn huga í þessu, velt fyrir sér öllum kostum og skoðað. Það þarf að skilgreina þarfirnar og átta sig á því hvaða verkefni blasa við Landhelgisgæslunni. Það hefur komið fram í ræðum manna í dag að það er ekki síst öryggi vegna þess að skip á hafinu í kringum landið hafa stækkað og þá þarf að huga að skipi sem hefur mikið dráttarafl og mikinn kraft til að bregðast við þeim aðstæðum. Í þessu tilliti þurfum við ekki að finna upp hjólið, það hefur þegar verið fundið upp. Spurningin er hvort við ætlum að láta laga það að okkar sérstöku þörfum og þeim kröfum sem við gerum. Það að standa hér upp, berja sér á brjóst og tala um nauðsyn þess að það þurfi að smíða eitthvert sérstakt skip held ég að sé ekki rétta afstaðan í málinu ef menn ætla að vera raunsæir og vinna að því í raun og veru að endurnýja skipakost Landhelgisgæslunnar á skynsamlegasta hátt.