131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þjónusta við innflytjendur.

356. mál
[15:52]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn sem er tímabær. Það er mikilvægt að sá starfshópur sem er að störfum á vegum félagsmálaráðuneytisins skili sem fyrst af sér og að brugðist verði við tillögum hans. Vinna þarf í nánu samstarfi milli ráðuneytanna að því er snertir hvert og eitt þeirra. Þessi málaflokkur er ekki eyland.

Það er mikilvægt að stuðla að því að innflytjendur aðlagist sem fyrst íslenskum aðstæðum og menningu. Íslenskan er lykillinn að því að fólk aðlagist samfélaginu þannig að ekki myndist einangraðir hópar. Það væri ávísun á fordóma og útlendingahatur. Námskeið í íslensku er lykillinn að farsælli lausn þeirra mála. Fyrir þá sem sækja um búsetu og þarf því að vera í boði íslenskunám á hverjum stað. Til þess er hægt að nota grunnskólakerfið. Það verður að vera innflytjendum að kostnaðarlausu svo að það skili sér.