131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[13:41]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að þetta frumvarp er að vissu leyti rökrétt afleiðing af ákvörðunum sem teknar hafa verið um framtíð raforkugeirans. Sem kunnugt er hafa verið samþykkt lög sem færa raforkugeirann inn á samkeppnissvið og þetta frumvarp miðar að því að búa raforkufyrirtækjum svipaðar skattareglur og gilda um önnur fyrirtæki á samkeppnismarkaði.

Ég hygg að þrátt fyrir að þetta sé rétt megum við gæta okkar á því að verða ekki undir nauðhyggjuhjólinu, að ákvörðun sem hafi verið tekin sé ekki hægt að breyta eða breyta stefnunni inn í annan farveg. Enn eru mikil átök um hvernig eigi að fara með þessa grunnþjónustu, rafmagn, vatn, bæði heitt og kalt, og skólpið, en öll þessi starfsemi tengist orkugeiranum á einn eða annan hátt.

Við tókumst á um það á Alþingi hvernig skyldi fara með drykkjarvatnið. Þar var Vinstri hreyfingin – grænt framboð einn flokka sem stóð einhuga að því að drykkjarvatnið yrði ekki markaðsvætt. Það var tekist á um leiðir hvernig ætti að tryggja að svo yrði. Skoðun okkar var sú að það ætti að tryggja með lögum að eignarhaldið væri hjá opinberum aðilum, ríki eða sveitarfélögum. Önnur leið sem við bentum á var sú að hafa hámark á þeim arðgreiðslum sem leyfilegt væri að taka út úr slíkri starfsemi. Við vildum fara fyrri leiðina og tryggja með lögum eignarhald ríkis eða sveitarfélaga, opinberra aðila, á vatninu.

Þetta er leið sem Hollendingar hafa núna staðfest með lögum. Það var hægri stjórn, ef ég man rétt, í Hollandi sem ákvað að festa það — gott ef það var ekki fest í stjórnarskrá landsins — að drykkjarvatn skyldi vera almannaeign enda er það í samræmi við yfirlýsingar og stefnumörkun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. En það er nú eitt að menn klappa fyrir ýmsum samþykktum þar en þegar þeir koma heim í sitt hérað er allt annað upp á teningnum enda láta menn undan þrýstingi frá gráðugum aðilum á markaði sem vilja komast yfir allt sem arðvænlegt er og öll þjóðin og allt samfélagið þarf á að halda.

Niðurstaðan varðandi vatnið varð sú að í þeim lögum sem samþykkt voru skal tryggt að meirihlutaeign yfir vatnsbólum skuli vera á hendi opinberra aðila. Þó er ekki búið svo um hnútana að meirihlutavald sé á þeirra hendi vegna þess að eignarhluti opinberra aðila getur skipst á fjölmarga aðila, fjölmörg sveitarfélög og ríkið. Það er því ekki tryggt að hinir opinberu aðilar fari sameinaðir með ákvörðunarvaldið yfir fyrirtækjunum.

Hins vegar var fallist á það sjónarmið, sem við tefldum mjög ákaft fram þegar fyrirsjáanlegt var að menn vildu ekki ganga alla leið varðandi eignarhaldið, að takmarka þann arð sem leyfilegt væri að taka út úr vatnsfyrirtækjunum.

Ég nefni þetta vegna þess að vatnið, heitt og kalt, er eins og ég gat um áðan tengt orkufyrirtækjunum. Það kemur reyndar fram í greinargerð með frumvarpinu að mjög erfitt sé að aðgreina á milli raforkuþáttarins og annarra þátta og er sérstaklega bent á heita vatnið. Hver er þá lausnin? Lausnin er sú að taka alla spyrðuna og færa hana undir hinar almennu skattareglur, færa alla spyrðuna inn á samkeppnissviðið. Við viljum gjalda varhuga við þessu. Við höfum mikla fyrirvara í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði varðandi frumvarpið. Við teljum mjög mikilvægt að það verði skoðað rækilega, vegna þess að áherslur okkar eru þær að þegar um er að tefla grunnþjónustu í samfélaginu eigi að tryggja að hún lúti almannavaldi, að hún heyri undir ríki og sveitarfélag og sú hugmynd um að færa þjónustuna inn á markaðssviðið er mjög varasöm.

Hæstv. iðnaðarráðherra lýsti sér sem afskaplega hamingjusömum ráðherra þegar hún vísaði í raforkufrumvarpið sem hún taldi sæta ólíkindum að hefði verið samþykkt, það voru raforkulögin, þó hún væri sjálf geysilega hamingjusöm með niðurstöðuna þá taldi hún sæta ólíkindum að það skyldi hafa verið samþykkt. Þessu lýsti hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, yfir á Alþingi en kvaðst sjálf vera afskaplega ánægð með frumvarpið. Hún sagði að sér fyndist vel koma til greina að reyna að fá lífeyrissjóðina í landinu til að eignast grunnþjónustuna, mjög æskilegt væri að fá lífeyrissjóðina í landinu til að eignast raforkufyrirtækin og grunnþjónustufyrirtækin í landinu. Hvað finnst mönnum um það? Finnst mönnum það vera æskilegt? (JÁ: Er eitthvað að því?) Finnst mönnum það vera æskilegt að óbreyttum lögum? Já, það er nefnilega mikið að því. Ég skal útskýra það fyrir hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Það hefur oft þurft að skýra þessi mál nokkuð vel fyrir Samfylkingunni því hún hefur því miður lagst á sveif með einkavæðingarsinnum þegar uppi hafa verið hugmyndir um að einkavæða grunnþjónustuna. Ég vísaði þar í vatnið og get vísað áfram í hafnirnar og fleiri slík dæmi. Ég skal nú skýra hvers vegna þetta er varasamt.

Lífeyrissjóðirnir starfa samkvæmt lagaákvæðum sem þvinga þá til að leita eftir hámarksarðsemi hverju sinni. Hvað þýðir það? Það þýðir að lífeyrissjóðirnir eru í reynd mest gefnir fyrir braskið þegar allt kemur til alls. Þegar bankatilfærslurnar voru á sínum tíma, fyrir rúmu ári, högnuðust lífeyrissjóðirnir í landinu mest á þeim tilfærslum. Hvers vegna? Vegna þess að þeir voru ekki að horfa til valdanna, þeir voru ekki að sælast eftir völdum í fyrirtækinu. Þeir horfðu bara á eitt: Hvar fæ ég mestan arð, hvar fæ ég mesta peninga? Þetta var það eina sem þeir horfðu til, enda er þeim gert að starfa þannig samkvæmt lögum. Þetta er ástæðan fyrir því að mjög varasamt er að fara með grunnþjónustuna í hlutabréfaformið, vegna þess að eigandinn þar er jafnan að leita eftir hámarksarði og þegar á móti blæs, þegar erfiðleikar steðja að eru þessir eigendur roknir og lífeyrissjóðunum ber að leita á önnur mið ef þessi staða er uppi. Þetta er staðreyndin.

Það er svo undarlegt að heyra fólk sem hefur samþykkt þessi lög og þessar reglur í samfélaginu spyrja síðan forviða þegar kemur að því að framfylgja þeim: Vorum við virkilega að samþykkja þetta? Já, það er þetta sem við höfum samþykkt.

Nú erum við að fara með þessa grunnþjónustu, þessa grunnstarfsemi í þetta fyrirkomulag. Það er alveg afspyrnu heimskulegt og slæmt. Þetta er ástæðan fyrir því að ég tel að að óbreyttum lögum alla vega sé ógerlegt, óheppilegt og óráðlegt að láta grunnstarfsemina í hendur lífeyrissjóðum. Reynslan er einnig þannig erlendis frá að lífeyrissjóðirnir haga sér á nákvæmlega sama hátt og aðrir fjárfestar vegna þess að búið er að innræta þeim, eins og öllu samfélaginu með frjálshyggjutali síðustu ára, að fyrsta, annað og þriðja boðorð skuli vera hámarksarðsemi að fjármagni. Þetta er staðreynd málsins.

Þess vegna segjum við: Við skulum fara varlega þegar við tökum á grunnþjónustunni, hvort sem það er vatn, skólp, rafmagn, varðandi eignarhald, varðandi heimildir til arðtöku, þ.e. þegar starfsemin er komin í einkahendur, og einnig skattheimtu. Við skulum fara varlega í þeim efnum.

Ég vil taka það fram eins og ég hef margoft gert að á meðan t.d. orkufyrirtæki er í almannaeign, eins og Orkuveitan í höndum sveitarfélaganna, finnst mér fullkomlega eðlilegt að þaðan sé tekinn arður og færður til annarra samfélagslegra verkefna. Það er allt önnur formúla. Það er allt annað fyrirkomulag. Þegar eignin er á hendi almennings, sveitarfélags eða ríkis er ekki hægt að tala um þetta á sama hátt og þegar eignarhaldið er komið á hendi fjárfesta sem eru að maka krókinn á þessari þjónustu. Það væri sama og að segja að olíu sem fyndist í olíuríki mætti ekki nýta til uppbyggingar samfélagsins. Að sjálfsögðu væri það fáránlegt. Að sjálfsögðu er fáránlegt að setja reglur sem banna tilfærslu á verðmætum, það er fáránlegur hlutur.

Hins vegar þegar verðmætin, auðlindirnar eru komnar í hendur á fjárfestum, á kapítalistum eru einfaldlega uppi allt önnur sjónarmið, allt önnur viðhorf.

Þess vegna, hæstv. forseti, vil ég setja mjög alvarlega fyrirvara við frumvarpið. Við viljum skoða mjög rækilega hvað hér er á ferðinni, vegna þess að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að þegar kemur að grunnþjónustunni í þjóðfélaginu eigum við að fara varlega varðandi eignarhald, skattheimtu og arðtöku úr þeim fyrirtækjum.