131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:58]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um þessa breytingartillögu stjórnarandstöðunnar í allsherjarnefnd og vil einungis bæta við einu atriði. Í umræðunni var getið um þessi tekjumörk sem um ræðir í þeim tilfellum sem einstaklingum er veitt gjafsókn á grundvelli efnahags. Fram hefur komið í umræðunni, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gat um, að tekjuviðmiðið væri 79 þús. kr. á mánuði. Það er auðvitað rétt þegar horft er til skattleysismarka og þeirra þátta sem formlega liggja á borðinu. Það kom hins vegar fram í máli gjafsóknarnefndarmanna að gjafsóknarnefndin liti þetta svo rýmilega að sett hefði verið niður viðmiðið 1.100 þús. kr. í tekjumark gjafsóknar.

Ég óskaði eftir því að kannað yrði með hvaða hætti þetta væri annars staðar á Norðurlöndunum og nú hafa mér borist upplýsingar um það frá lögfræðingum nefndasviðs Alþingis. Löggjöfin er ekki sambærileg í sjálfu sér að neinu leyti þannig að það er erfitt að bera a-liðinn og b-liðinn saman við löggjöf Norðurlandanna. Þó kemur í ljós við skoðun að tekjuviðmiðin sem frændur okkar á Norðurlöndum vinna eftir eru talsvert önnur en hér. Þannig er tekjuviðmiðið í Danmörku 236 þús. danskar kr. á ári sem er u.þ.b. 2,5 millj. íslenskar kr. Það er talsvert hærra mark en við þurfum að vinna með hér á Íslandi. Norðmenn hafa tekjuviðmið sem er svipað og hjá Dönunum, þ.e. 230 þús. norskar kr. sem nemur 2,3 millj. íslenskra kr. í árstekjur. Norðmenn eru reyndar með eignamörk líka þannig að þeir einstaklingar sem eiga eignir sem nema 100 þús. norskum krónum, sem er u.þ.b. 1 millj. íslenskra kr., eru taldir í þessu tilliti eignalitlir.

Svíþjóð virðist hafa svipuð tekjuviðmið og Danmörk þannig að hvað varðar a-liðinn erum við að horfa til miklu rýmri heimilda sem gjafsóknarnefndir nágrannalandanna okkar hafa en gjafsóknarnefndin okkar hér.

Þetta vildi ég að kæmi inn í þessa umræðu úr því að ég fékk þessar upplýsingar þótt seint væri þannig að fólk gæti þá haft það svona í framtíðartilvitnunum í þessa umræðu að það hafi komið fram hversu illa við stöndum að þessum málum hvað varðar hina efnaminni.