131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:00]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp kemur fram ef það verður til þess að rjúpnaveiðar verði leyfðar á ný sem ég reikna nú með. Þetta frumvarp snýr að því að auka heimild til ráðherra til að takmarka sókn í stofninn og það er þá heimild til að banna sölu rjúpna og rjúpnaafurða.

Sú skoðun kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að banna þyrfti innflutning á rjúpum. Ég tel að ekki eigi að gera það strax heldur frekar láta reyna á þetta. Ég reikna frekar með að veiðimenn vilji að þessi lög nái fram að ganga og veiðar verði leyfðar um næstu framtíð.

Einnig hafa menn rætt um að setja kvóta á rjúpur. Ég tel það algjörlega ófært. Það er hrein og klár della að ætla að kvótasetja rjúpu. Það er nógu erfitt að framfylgja ýmsum öðrum kvótalögum þó að menn fari ekki að ætla að framfylgja kvótum á fiðurfé úti um öll fjöll landsins. Ég skil ekkert í því ef menn ætla að fara þessa leið. Þetta er hrein og klár della. En mér líst ágætlega á takmörkun farartækja. Aðalatriðið í þessu er að almenn sátt verði um veiðarnar. Ég tel að veiðimenn verði fremstir í því að hafa gætur á öðrum veiðimönnum.

Það hafa komið hér ýmsar fullyrðingar, t.d. hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, um að veiðibannið hefði haft mjög mikil áhrif til hins betra. En eins og veiðibannið var framkvæmt af hæstv. þáverandi umhverfisráðherra þá vitum við því miður lítið um það vegna þess að rjúpnastofninn var í lágmarki og auðvitað óx rjúpnastofninn. Það er vita mál að þegar rjúpnastofninn er í lágmarki þá eru allar líkur til þess að í honum fjölgi á ný. Við vitum í raun ekkert eftir algjört veiðibann hvort fjölgunin sé vegna veiðibannsins eða einfaldlega liður í náttúrulegri sveiflu stofnsins. Það hefði verið miklu nær að friða ákveðin svæði og leyfa veiðar á öðrum og jafnvel að leyfa mismiklar veiðar á ákveðnum svæðum og reyna þannig að átta sig á því hver áhrif veiðanna eru. (HBl: Kvótasetja svæðin með öðrum orðum.) Eigum við ekki frekar að segja að hv. þingmaður ætti að líta til tillagna okkar um hvernig á að stýra veiðum vegna þess að í okkar ágæta þingflokki, Frjálslynda flokknum, eru margir sem hafa reynslu af veiðum og við gerum okkur ljóst að mjög erfitt er að takmarka það sem fæst í veiði. Miklu nær væri að takmarka sókn á ákveðin veiðisvæði. Þar hefur einmitt náðst árangur við að stýra veiðum.

Ég tel einmitt vegna þeirra reglna sem hæstv. umhverfisráðherra leggur til, geri hún sér grein fyrir því svona smám saman að það sé eiginlega mjög erfitt að takmarka það sem fæst í veiðinni og að miklu nær sé að takmarka sóknina og takmarka græjur og annað. Ég tel því að Sjálfstæðisflokkurinn sé þarna að átta sig á rökum og taka upp rök okkar í Frjálslynda flokknum. Það væri betur ef Sjálfstæðisflokkurinn gerði það í fleiri málum. Þá gengi okkur eflaust betur að stjórna annars konar veiðum en úr rjúpnastofninum og næðum mun meiri árangri t.d. í veiðum úr þorskstofninum sem Sjálfstæðisflokknum hefur nú gengið alveg hrapallega að stjórna.

Það er sárt til þess að vita — það var farið í gengum það — varðandi veiðitölur úr þorski t.d. þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið, að meðaltöl síðustu ára eru lægri en þegar nasistar friðuðu fiskimiðin hér á stríðsárunum. Það er til marks um það hvað fiskveiðistjórn og stjórn sjálfstæðismanna í sjávarútvegi hefur gengið illa. Ég tel að þetta geti verið fyrsta skrefið í að flokkurinn átti sig á því að miklu nær væri að taka upp sóknarstýringu.

Því var haldið hér fram að veiðin væri of mikil. Ég tel að við verðum að spyrja okkur hvað við eigum við með því. Ég tel að þetta sé mjög góð spurning sem verði að spyrja. Erum við eitthvað bættari með því að flögrandi séu 50 þúsund fleiri rjúpur? Ég tel ekki svo endilega vera. Ég tel að þetta mál snúist miklu frekar um viðhorf til veiða og hvort fólk sé almennt fylgjandi hæfilegum veiðum eður ei.

Ég tel að fróðlegt væri í umræðunni að fá svör við einni spurningu hjá hæstv. umhverfisráðherra. Spurningar komu fram um hvort umrætt rjúpnaveiðibann sem hefur staðið nú yfir hefði haft mjög slæm áhrif á veiðikortakerfið. Ég tel að mjög þarft sé að fá svar við þeirri spurningu, þ.e. hvort það hafi farið svo illa og hvort menn leiði líkur að því að verið sé að gefa upp rangar veiðitölur eður ei.

Varðandi þá umræðu sem kom upp hér um stærð rjúpnastofnsins liggja staðreyndirnar reyndar á borðinu um að lágmark rjúpnastofnsins þegar friðun hófst var ekkert lægra en fyrri lágmörk stofnsins. Það er náttúrlega ákveðið áhyggjuefni, þ.e. þegar Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun tókust á, að þá hugðist Náttúrufræðistofnun setja rjúpuna á válista. Það er með ólíkindum að Náttúrufræðistofnun hafi talið það vænlegt að þegar sveiflur í dýrastofni — þ.e. reglurnar sem þeir beita eru þær að minnkunin verði 30% en náttúrulegar sveiflur eru langt umfram þessi 30% sem Náttúrufræðistofnun lagði til grundvallar. Í raun er það spurning þegar menn hyggjast setja dýrastofna á válista vegna náttúrulegra sveiflna og það tel ég vera ákveðið áhyggjuefni.