131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:48]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er dæmigerð sprengidagsumræða. Ég vil segja við hv. þingmenn: Til hvers voru þið kosnir á þing? Var það ekki til að fylgja eftir hugsjónum ykkar? Hvaða frumvörp og hvaða þingsályktanir hefur stjórnarandstaðan flutt um landbúnaðarmál? Ekki eitt einasta mál. (Gripið fram í: Hvað er að? …) Situr svo grátandi og kvartar yfir því að fá ekki mál til að ræða í landbúnaðarnefnd.

Nei. Taktur stjórnarandstöðunnar er náttúrlega Gróu gömlu á Leiti. Hún er enn höfð uppi við. Ólyginn sagði mér að landbúnaðarráðherra væri ekki störfum sínum vaxinn og væri ekki að flytja mál.

Íslendingar vita að afrek ráðherra verða ekki mæld í frumvörpum eða nýjum lögum. Atvinnuvegir … (Gripið fram í: Í saltkjötsáti?) Ja, hv. þm. Steingrímur Sigfússon borðar nú meira saltkjöt en flestir aðrir menn og hleypur það svo af sér á kvöldin.

Ég undra mig á málflutningi stjórnarandstöðunnar, sem er bara skemmtilegt upphlaup á þessum blessaða degi, ég hef ekkert við það að athuga og ég hvet þá til að flytja mál. Ég þarf að flytja hér mál og það eru mál í vinnslu. Ég er ekkert að kvarta yfir því að það sé álag á mér, ég hef nóg að gera og get gert meira en ég geri. Embættismenn mínir í landbúnaðarráðuneytinu búa í litlu ráðuneyti og hafa ærið nóg að gera. Hér er von á málum, þannig að þetta upphlaup hefur ekkert með það að gera.

Hitt er ljóst mál að það er margt að gerast í sveitunum og ábúðar- og jarðalögin hafa ekkert með það að gera að jarðaverð hefur aldrei verið hærra. (Forseti hringir.) Fjárfesting bændanna í landinu og jarðirnar eru eftirsóttar eignir (Forseti hringir.) og það er horft til sveitanna með mikil tækifæri í huga. (Forseti hringir.) En við þurfum lengri umræðu til þess að ræða þetta hér.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hæstv. landbúnaðarráðherra að virða ræðutíma.)