131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Lögreglulög.

42. mál
[15:10]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hafði svo sem ekki sérstaklega hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu en ég stóðst ekki áfrýjunarorð hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar sem talar fyrir þessu máli. Hann kallaði eftir þingmönnum landsbyggðarinnar til að blanda sér í þessa umræðu en ég lít svo á að mál þetta snúi ekki bara að landsbyggðinni heldur hafi það miklu víðtækari skírskotun en svo.

Við höfum öll fylgst með því hvernig ríkið hefur reynt að velta löggæslukostnaði í tengslum við skemmtanahald á landinu yfir á þá sem standa fyrir skemmtunum og hafa rukkað þá um kostnað sem nær langt út fyrir þau svæði þar sem skemmtanir eru haldnar. Við höfum fylgst með þessu í fjölmiðlum undanfarin ár og umræðum um það mál.

Ég tel þetta með öllu óeðlilegt. Eins og fram kom í máli hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar mætti eins kannski gera kröfu um það, og maður hefur svo sem heyrt það orðað, að Reykjavíkurborg taki með einhverjum hætti þátt í kostnaði við löggæslu í tengslum við menningarnótt. En þá spyr maður: Hvað með 17. júní? Hvað með Þorláksmessu? Hvað með ýmsar uppákomur sem verða hér í borginni? Er það þá sveitarfélagsins að standa undir þeim kostnaði? Auðvitað hlýtur maður að svara því neitandi, enda segir í lögunum, sem er auðvitað meginreglan, að ríkissjóður stendur undir öllum kostnaði af starfsemi lögreglunnar. Annað hlýtur að heyra til undantekninga.

Ég kom hins vegar í ræðustól til að vekja athygli á því að almennt vantar miklu skýrari reglur og lög utan um skemmtanahald í landinu. Eins og bent er á í greinargerð með frumvarpi þessu eru margar af þeim reglum sem um skemmtanir gilda komnar ansi vel til ára sinna. Lögin um heimild til að marka skemmtunum og samkomum tíma eru t.d. frá árinu 1947. Í gildi er reglugerð um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum frá 1987. Frá þeim tíma sem liðinn er, á tæpum 20 árum, hefur skemmtanahaldið breyst mjög mikið. Opnunartími staða er annar en hann var. Skemmtanamenningin hefur breyst. Öll umgjörðin hefur breyst og auðvitað ættu lög og reglur að fylgja þeim veruleika sem við búum við.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að gera stífar kröfur á þá sem standa fyrir skemmtunum, hvort sem það er á veitingastöðum í Reykjavík eða á mótum úti um landið. Ég geri í sjálfu sér engan greinarmun þar á. Við eigum að gera mjög ákveðnar og skýrar kröfur til þeirra sem standa fyrir skemmtunum. Við eigum að geta tryggt að þeir standist þær kröfur og standi undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar og að skemmtanahald almennt fari fram með sómasamlegum hætti, hvort sem það er í borginni eða utan borgarmarkanna. Við eigum t.d. að geta gert kröfur varðandi menntun dyravarða eða gæslumanna á slíkum stöðum. Við eigum að geta gert kröfur um að menn séu ekki að selja ofurölvi fólki áfengi á skemmtistöðum. Við eigum að geta gert kröfur um að ekki séu áflog og háreysti við dyr á skemmtistöðum o.s.frv.

Við eigum líka að geta gert kröfur um að löggæslan og lögreglan standi fyrir sínu. Við höfum kvartað mikið undan því hér í Reykjavík að löggæslan sé alls ekki nógu sýnileg. Hún er t.d. alls ekki nógu sýnileg í miðborg Reykjavíkur að næturlagi um helgar. Væntanlega skortir á fjármuni til að hægt sé að sinna því með sómasamlegum hætti.

Ég kem hér upp til þess að lýsa því yfir að almennt tel ég að endurskoða þurfi þessi mál öll, ekki bara það sem hér er verið að leggja til heldur þurfi að fara vel í gegnum lögin og þær reglugerðir sem gilda um skemmtanahald. Það eru orðin allnokkur ár, ætli það séu ekki orðin ein þrjú ár síðan Reykjavíkurborg beindi þeim eindregnu tilmælum til bæði samgönguráðuneytisins, sem fer með málefni veitingahúsa, og dómsmálaráðuneytisins að þetta yrði gert og það var alveg listað upp nákvæmlega hvað það væri sem þyrfti að gera. Mér er ekki kunnugt um að þau verk hafi enn þá verið unnin í þessum tveimur ráðuneytum. Ég mun vegna þessa máls sem hér er komið upp skoða það í kjölfar umræðunnar hér og með tilliti til þess að það sé hægt að ýta á eftir því að þessi tvö ráðuneyti taki á þessum málum.

Veitingahúsarekstur og skemmtanahald er mjög vaxandi atvinnustarfsemi. Hún þarf að geta farið fram með sómasamlegum hætti og við þurfum öll að geta verið örugg þegar við tökum þátt í skemmtunum eða förum á skemmtistaði eða útihátíðir og þar skiptir löggæslan og allt regluverkið í kringum þetta verulega miklu máli. Ég kem hér bara upp til þess að lýsa yfir þeirri skoðun minni að þetta þurfi allt skoðunar við.