131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Lögreglulög.

42. mál
[15:16]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir málflutning síðasta ræðumanns, hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, um að endurskoða þurfi öll þessi mál. En að sjálfsögðu mun það eflaust taka einhvern tíma og miðað við þann hraða sem er á slíkum framkvæmdum hér á landi er kannski ekki þess að vænta að gerð verði bragarbót þar á næstu missirin.

Ekki er að sjá að stjórnvöld í landinu hafi í raun og veru voðalega mikinn áhuga á því að gera einhverjar umbætur í þessum málum. Meðal annars vil ég vekja athygli á að hæstv. dómsmálaráðherra er ekki viðstaddur þessa umræðu og reyndar er enginn stjórnarþingmaður hér í þingsal. En nóg um það.

Við ræðum frumvarp til laga sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur lagt fram á hinu háa Alþingi, um breytingu á lögreglulögum. Hann leggur til að 34. gr. í lögreglulögunum frá 1996 verði felld niður.

Þessi grein hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lögreglustjóra er heimilt að binda skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og jafnframt að leyfishafi greiði kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.“

Hér er textinn afskaplega skýr, „lögreglustjóra er heimilt“. Hér stendur ekki: Lögreglustjóri skal, heldur er honum heimilt. Þetta hefur því miður, ef ég má segja svo, leitt til þess að framkvæmdin á þessu ákvæði hefur verið vægast sagt afskaplega handahófskennd um langa hríð. Við höfum mörg dæmi um það á undanförnum missirum þar sem mönnum eða við getum sagt þeim sem halda íþróttamót, mannfagnaði, hátíðir, sérstaklega úti á landi, hefur hreinlega verið mismunað. Gott dæmi eru atvik sem urðu sumarið 2003, ef ég man rétt, þar sem á íþróttamóti á Skagaströnd, lítilli hátíð sem haldin var á Skagaströnd, var mótshöldurum gert að greiða löggæslukostnað en mótshöldurum sem stóðu fyrir mikilli hátíð á Akureyri um verslunarmannahelgi var ekki gert að greiða slíkan kostnað. Þetta er náttúrlega alveg augljós mismunun og fráleit sú réttlæting yfirvalda að á öðrum stöðum sé fyrir hendi lögreglulið sem sé á kaupi og því þurfi ekki að rukka fyrir það en á hinn staðinn þurfi að senda lögreglulið og greiða þeim yfirvinnu og annan kostnað í tengslum við slíkt.

Hér er augljós mismunun á ferðinni og þetta er hreinlega ósanngjarnt. Mér þykir þetta líka ósanngjarnt í ljósi þess að oft eru þessar hátíðir úti á landi haldnar af íþróttafélögum eða öðrum félagasamtökum, ungmennafélögum til að mynda, til fjáröflunar. Virðisaukinn af þessum hátíðahöldum verður eftir í sveitarfélögunum og er undantekningarlaust, leyfi ég mér að fullyrða, notaður til góðra verka. Þegar til lengri tíma er litið er það mannbætandi fyrir mannlífið úti á landsbyggðinni og í landinu öllu að þeir peningar verði þar eftir og séu notaðir einmitt til að byggja upp íþrótta- og æskulýðsstarf á þessum stöðum. Við getum nefnt Skagafjörð, Ísafjörð og Vestmannaeyjar í þessu sambandi og eru þá fáein dæmi til talin.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson leggur þetta frumvarp fram eða mælir fyrir því í annað sinn, hann gerði það einnig í fyrra. Það er lagt fram núna með lítils háttar breytingum og umbótum. Þingmaðurinn hefur tekið tillit til þeirra umsagna sem bárust um málið í fyrra, því miður var það ekki afgreitt úr þingnefnd þá vegna þess að stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sáu sér af einhverjum ástæðum ekki fært að styðja þetta góða mál. En þingmaðurinn hefur sem sagt tekið tillit til þeirra athugasemda sem bárust og leggur málið fram í örlítið breyttri mynd.

En mig langar að lokum, virðulegi forseti, til að benda á eina af þeim umsögnum sem bárust og þetta er umsögn frá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Flestir ef ekki allir landsmenn stunda skemmtanir af einu eða öðru tagi og fer mikill meiri hluti þeirra fram undir almennri vernd lögreglu án þess að sérstök greiðsla komi fyrir. Undantekningum frá þessari meginreglu fer fækkandi og er nú svo komið að telja verður eðlilegt að jafna með öllu kostnað af skemmtanahaldi í landinu svo allir sitji við sama borð í þessu tilliti jafnt í þéttbýli sem dreifbýli en sem kunnugt er hefur þessi löggæslukostnaður helst lagst á skemmtanir í dreifbýli.“

Ég lýsi því yfir í lok máls míns að þessa vísu hefði ekki einu sinni ég getað kveðið betur, virðulegi forseti.