131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Verðmæti og ráðstöfun losunarheimilda.

385. mál
[13:22]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Spurning númer eitt hljóðar svo:

„ Sé miðað við verð losunarheimilda á hvert tonn af gróðurhúsalofttegundum (koltvísýringsígildi) í viðskiptum með þær heimildir í Evrópu undanfarið, hvert er þá áætlað markaðsverðmæti þeirra 417.000 tonna af koltvísýringi sem eftir eru af kvóta Íslands fyrir einstök verkefni samkvæmt yfirliti því sem ráðherra kynnti ríkisstjórn 16. nóvember sl.?“

Erfitt er að gera sér grein fyrir markaðsverðmæti þeirrar losunar á koltvísýringi sem óráðstafað er af losunarheimild Íslands fyrir nýja stóriðju. Ekki er heimilt að framselja eða ráðstafa þessari losunarheimild og ýmis skilyrði eru fyrir notkun hennar. Ef hér væri hins vegar um að ræða almenna losunarheimild sem seljanleg væri mundi verðmæti þeirra 417.000 tonna af koltvísýringi sem Ísland hefur óráðstafað af losunarheimild sinni nema um 220 millj. kr. miðað við að gangverð í Evrópu undanfarnar vikur sé um 525 kr. á tonnið. Hins vegar gera spár ráð fyrir því að þetta verð lækki mjög á næstu tveimur árum og verði á bilinu 100–400 kr. á tonnið. Verði það meðalverð á losunarheimild á þessu bili á næstu árum væri verðmætið á bilinu 42–165 millj. kr. Því vil ég taka fram að gera verður mikla fyrirvara um þessar upphæðir þar eð mikil óvissa virðist vera um líklegt markaðsverð á losunarheimildum í náinni framtíð.

Þessar upplýsingar byggi ég á skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar um áhrif viðskipta með losunarheimildir í Evrópu og áhrif þeirra á raforkuverð.

Annar liður spurningarinnar hljóðar svo:

„Hvert er áætlað markaðsvirði þeirra losunarheimilda sem ætlaðar eru stóriðju hér á landi og tilgreindar eru í sama minnisblaði, sundurliðað eftir fyrirtækjum?“

Gera verður sama fyrirvara og við fyrsta lið fyrirspurnarinnar varðandi markaðsvirði losunarheimilda. Ef hins vegar stóriðjufyrirtækin hér á landi þyrftu að kaupa losunarheimild á opnum markaði á verði síðustu missira, 525 kr. á tonnið, þyrftu þau að greiða eftirfarandi upphæðir miðað við raunverulega og áætlaða aukningu losunar þeirra frá árinu 1990:

Alcan mundi þurfa að greiða 68 millj. kr., járnblendiverksmiðjan 92 millj. kr., Norðurál 206 millj. kr. og Fjarðaál 255 millj. kr.

Hér er miðað við líklega árlega koltvísýringslosun fyrirtækjanna á fyrsta skuldbindingartímabili loftslagssamningsins fyrir árin 2008–2012 þannig að enn og aftur verður að gera mikla fyrirvara um þessar upphæðir.

Þriðji liður fyrirspurnarinnar hljóðar svo:

„Er gert ráð fyrir stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík í yfirliti ráðherra?“

Í yfirliti því sem iðnaðarráðherra kynnti í ríkisstjórn 16. nóvember 2004 eru aðeins talin upp þau stóriðjufyrirtæki sem samið hefur verið við um aukna framleiðslu frá árinu 1990, Alcan og járnblendifélagið, og einnig önnur stóriðjufyrirtæki sem nýir samningar hafa verið gerðir við frá 1990, Norðurál og Fjarðaál.

Fjórði liður fyrirspurnarinnar hljóðar svo:

„Hvernig verður staðið að ráðstöfun þeirra losunarheimilda sem eftir eru?“

Engin ákvörðun hefur verið tekin um það af hálfu stjórnvalda með hvaða hætti samið verði um nýtingu á þeirri losunarheimild sem enn rúmast innan íslenska ákvæðisins, enda er undirbúningur samninga um aukna stóriðju ekki á því stigi að unnt sé að taka ákvarðanir um slíkt.