131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis.

424. mál
[14:57]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hvað hefur breyst síðan 2002? spurði hv. þm. Katrín Júlíusdóttir. Jú, það er kominn karlmaður í dómsmálaráðuneytið, það er alveg augljóst. Þaðan fór kona og kannski hefur eitthvað breyst við það.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur heimilisofbeldis sem ætlunin var að setja á laggirnar á sínum tíma að fyrirmynd neyðarmóttöku fyrir þolendur nauðgunar — það eru mjög fáir sem hafa vitað að eitthvert starf væri í gangi. Þetta hefur verið afskaplega lítið kynnt, lítið auglýst, sem getur líka verið skýringin á því að fjármagn er ekki nýtt. Það þarf að byggja þetta þannig upp, þetta starf þarf tíma til að sanna sig, ekki bara mikilvægi sitt í þjóðfélaginu, heldur líka fyrir þá einstaklinga sem fyrir ofbeldinu verða. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra að styrkja m.a. þennan þátt, þ.e. að koma þessari neyðarmóttöku á, að hún sé virk og að þjóðfélagið viti af því að hún er þarna til staðar.