131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[15:37]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir mér óþarflega hátt undir höfði þegar hann reynir að setja mig í hlutverk fjármálaráðgjafa. Ég held að ég sé kannski ekki alveg besti maðurinn í því, a.m.k. sýnir tékkheftið mitt það ekki.

En spurningin um hvort lífeyrissjóðirnir eigi að kaupa í Símanum eða ekki. Ég held að það verði að vera ákvörðun lífeyrissjóðanna, a.m.k. treysti ég mér ekki á þessari stundu til þess að leggja mönnum á ráðin í þeim efnum. Ef það er hins vegar svo að það er mat lífeyrissjóðanna að þarna geti verið um að ræða arðvænlega fjárfestingu sem muni bæta hag lífeyrisþeganna, fólksins sem á að fá lífeyri sinn greiddan, þá er það auðvitað sjálfsagður hlutur því lífeyrissjóðirnir eiga fyrst og fremst að hafa það að markmiði að ávaxta sitt pund sem best þannig að við sem höfum verið að borga í lífeyrissjóðina, hvort sem það er í Lífeyrissjóð sjómanna, Lífeyrissjóð Bolungarvíkur eða Lífeyrissjóð alþingismanna, getum notið eðlilegs og góðs lífeyris í framtíðinni.

Við sjáum það núna á síðustu árum þegar ávöxtunin í atvinnulífinu hefur verið góð að þá hefur það gerst að lífeyrissjóðirnir hafa verið að bæta mjög sinn hag. Það horfði illa í ýmsum sjóðum fyrir fáeinum árum en horfir betur núna vegna þess að ávöxtunin hefur verið að batna, en auðvitað vitum við að fjárfesting í hlutabréfum er áhættufjárfesting. Við vitum að bara fyrir fáeinum árum var þetta allt á miklu verri veg. Þá var neikvæð ávöxtun í góðum lífeyrissjóðum vegna þess að þeir voru með hluta af skuldabréfasafni sínu í hlutabréfum og tóku þar af leiðandi þessa dýfu. Þetta er eitthvað sem sjóðirnir verða að vega og meta. Ég geri ráð fyrir því að lífeyrissjóðir verði að fara varlegar en margir aðrir vegna þess að þeir verða að gæta þess að hætta ekki mjög miklu, en þá verða þeir náttúrlega stundum af miklum gróða en losna svo líka við mikið tap. Þetta er auðvitað ekki mjög skýrt svar frá fjármálaráðgjafa sem var að reyna að setja sig í þann búning, enda ekki við miklu að búast.