131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:19]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem fram kemur í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að um Ríkisútvarpið eigi að fara fram opin og lýðræðisleg umræða. Þess vegna fagna ég þeirri umræðu sem fer hér fram í dag. Ég vil einnig segja að í öllum grundvallaratriðum er ég sammála hv. þm. Merði Árnasyni.

Eitt hef ég ákveðnar efasemdir um og það er varðandi fjármögnun Ríkisútvarpsins. Hv. þingmaður talar um að draga beri stórlega úr vægi auglýsinga og kostunar. Það skrifa ég upp á. Í sjálfu sér væri það keppikefli að ná því fram að draga úr vægi auglýsinga en er það ekki, ef við framfylgjum því grimmilega, ávísun á samdrátt og niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu? Við getum ekki horft fram hjá því að Ríkisútvarpið, sem er með veltu upp á 3,3 milljarða, þarf að reiða sig að verulegu leyti á auglýsingatekjustofninn eða um tæpan milljarð króna, rúmlega 900 milljónir. Ég óttast að ef við tökum þann tekjustofn frá Ríkisútvarpinu þýddi það verulegan samdrátt í allri dagskrárgerð.

Eins er náttúrlega með þá blöndu af efni sem Ríkisútvarpið á að sinna, íslensku menningarefni og hinu sem er svona léttara, það má ekki horfa fram hjá því að farið var út í að stofna til Rásar 2 og ná í svona léttara efni í og með til þess að skapa meiri breidd og þar með auknar auglýsingatekjur. Þetta er allt hluti af mynd sem þarf alltaf að hafa alla undir.