131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[18:37]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég las áðan í ræðu minni úr grein Ólafs Jóhannessonar þar sem hann segir að völd forseta Íslands séu að mestu leyti formleg, þ.e. að hann hafi ekki raunveruleg völd.

Það sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi er að forseti Alþingis verði kjörinn af meiri hluta Alþingis og það skuli fyrst kjörið á milli allra þingmanna, síðan skuli þeir tveir sem flest hafa atkvæðin vera í framboði og kosið aftur til þess að tryggt sé að það sé meiri hluti Alþingis á bak við forseta Alþingis. Þetta er mjög nákvæmlega útlistað.

Varðandi málskotsréttinn þá er gert ráð fyrir því í 13. gr. að 26. gr. stjórnarskrárinnar orðist svo:

„Er Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp skal forseti Alþingis staðfesta það eigi síðar en tveimur vikum eftir að frumvarpið var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi.“

Síðan segir:

„Kosningarbærir menn, sem svara að fjölda til fjórðungs manna á kjörskrá við síðustu alþingiskosningar, geta farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu vegna laga og ákvarðana Alþingis innan tveggja mánaða frá birtingu þeirra.“

Þarna er gert ráð fyrir að þjóðin sjálf geti ákveðið hvort fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Gert er ráð fyrir 25% þröskuldi sem má ræða hvort vera eigi 20% eða 30%, þ.e. eftir því hvað menn vilja fá mikið af slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum í gang, því að eftir því sem þröskuldurinn yrði lægri þeim mun fleiri yrðu þær og það eru ákveðnar hættur því fylgjandi. En það er gert ráð fyrir að það séu þjóðaratkvæðagreiðslur í þessu frumvarpi, og forsetinn, sem verður forseti Alþingis, tekur við mörgu af því sem forseti lýðveldisins gerir í dag. Að öðru leyti taka forsætisráðherra og ráðherrar við þeim völdum sem þeir hafa raunverulega í dag, því að ráðherra framkvæmir vald forseta.