131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:37]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur hvergi að þetta rekstrarform, þ.e. einkahlutafélag, vinni gegn akademísku frelsi í skólanum. Þetta eru fullyrðingar gamalla vinstri manna sem koma hér upp og ég átti ekki von á því frá hv. þingmanni að hann færi að beita slíkum brögðum hér.

Ég fullyrði það og margir sem hafa farið yfir þetta mál og ég held að eiginlega allir hafi verið sammála um málið í menntamálanefnd nema fulltrúi Vinstri grænna. Síðan hefur það gerst að fulltrúar Samfylkingarinnar eru allt í einu farnir að gera þetta form tortryggilegt, þ.e. þá sem eru að leggja mikla fjármuni til þessa skóla. (Gripið fram í.) Verið er að gera lítið úr þeim aðilum, eins og Samtökum iðnaðarins og fleirum, að þeir hafi eitthvað slæmt í hyggju og ætli að stjórna þessum skóla með eigin ráðum. (Gripið fram í.) Ég held að öllum mönnum gangi gott til við stofnun þessa háskóla. En það sem er og kemur fram hér hjá fulltrúum Samfylkingarinnar, er að þeir eru á móti stofnun þessa skóla.