131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:13]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst, varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, varðandi hvað ég hafi fyrir mér í þeim efnum að tæknigreinum verði fækkað þá höfum við upplýsingar um það í gögnum nefndarinnar. Ég var að leita í gögnunum mínum meðan hv. þingmaður hélt ræðu sína. Ég náði ekki að finna það plagg en ég skal gera grein fyrir því í ræðu minni á eftir.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að í svörum Guðfinnu Bjarnadóttur kemur fram að efnislega eigi ekki að rýra tæknifræðinámið en á öðrum stað í gögnunum segir að greinum í tæknifræði muni fækka. Ég hef það hjá mér og get komið með það í ræðustól á eftir. Ég er ekki að búa það til, hæstv. forseti.

Varðandi hitt málið sem hv. þingmaður kom inn á með Háskóla Íslands, hvort það eigi bara að vera einn háskóli í landinu og Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji að ástandið sé þannig, þá ætla ég að minna hv. þingmann á að ríkisstjórnin stendur ekki nægilega vel við bakið á Háskóla Íslands á meðan ljóst er að það eru 100 virkir nemendur í Háskóla Íslands umfram hámarksfjölda nemenda sem stjórnvöld greiða fyrir, í þessum reikniflokki númer 5 til Háskóla Íslands. Það er reikniflokkurinn sem verk- og tæknifræðingar heyra undir. Þessar upplýsingar hef ég úr grein Valdimars K. Jónssonar sem ég vitnaði til í ræðu minni. Ég tek undir það sem hann segir að það liggi beint við að stjórnvöld viðurkenni þennan fjölda, þá hundrað sem ekki er greitt fyrir, og greiði fyrir þá nemendur áður en farið er út í að stofna nýja háskóla og sjá til þess að aðrir háskólar geti staðið á öflugan hátt við bakið á tæknifræðingum eða verkfræðingum. Það er ekki forsvaranlegt að slíkt sé gert á kostnað nema í Háskóla Íslands. Það er gert með frumvarpinu hér og því mótmæli ég.